Ari Trausti: tók ákvörðun um afboðun og breytingar

Ari Trausti Guðmundsson, 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Borist hafa svör frá Ara Trausta Guðmundssyni 2. varaformanni Samgöngu- og umhverfisnefndar Alþingis við spurningum sem nefndinni voru sendar vegna óvæntra breytinga á fyrirkomulagi fundar nefndarinnar með fulltrúum sveitarstjórna á Vestfjörðum.

Ari Trausti var starfandi formaður á fundinum en ekki Vilhjálmur Árnason eins og talið var og leiðréttist það hér með. Segist Ari Trausti hafa tekið ákvarðanir um breytingar í samráði við stjórnarmeirihlutann í nefndinni.

Koma hér spurningarnar og svörin.

Hvers vegna voru þim kjördæmisins og fulltrúar sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum afboðaðir á fundinn í dag?

 

Hvers vegna voru fulltrúar Táknafj og Vesturbyggðar kallaðir sér inn og Reykhóla sér en ekki saman eins og óskað hafði verið eftir?

 

 

Fyrra svar:

 

Nefndarfundir Alþingis með boðnum gestum eru haldnir til þess að þingmenn fái tækifæri til þess að kynna sér sjónarmið utanþings  er varða þingmál og spyrja spurninga í því skyni. Þeir eru hvorki umræðufundir gesta né fundir þar sem þingmenn rökræða beint sjónarmið gesta með þeim og reyna að fá þá til að taka upp skoðanir, samþykkja skoðanir eða skipta um skoðun. Við hlustum og spyrjum, jafnvel þráspyrjum.

 

Sameiginlegur fundur U/S-nefndar með 15-20 manns, 3. janúar; fulltrúum nokkurra sveitarfélaga, landshlutasmtökum þeirra, þingmönnum kjördæmisins og fulltrúum Vegagerðarinnar stefndi í að vera samkoma sem ekki er á færi þingnefndarinnar vegna andstæðra sjónarmiða, ólíkra raka og ólíkra túlkana á upplýsingum um t.d. kostnað víð valkosti bráðnauðsynlegra samgöngubóta á Vestfjörðum. Þess vegna tók ég, sem starfandi formaður nefndarinnar, í samráði við stjórnarmeirihlutann í nefndinni og nefndarritara, þá ákvörðun, daginn fyrir fund, að breyta þegar í stað tilvonandi fundi.

 

Ég var utanlands, að mestu úr sambandi, til og með 2. janúar; vissi ekki um tilvonandi fjöldafund, aðeins upphaflegu hugmyndina um fund með suðurfirðingum og Vegagerðinni. Jón Gunnarsson var og er einnig utanlands og ítrekaðar tilraunir okkar, eftir mína heimkomu, til að tala saman gengu ekki upp vegna sambandsleysis við hann, hann sennilega á siglingu á hafi úti. Ég sá einnig á tölvupóstum sumra stjórnarandstöðuþingmanna í nefndinni að þeim hugnaðist ekki tilhögun umrædds fundar.

Niðurstaðan, og hún var unnin á skömmum tíma daginn fyrir fundinn, varð sú að fresta fundi með fulltrúum sveitarfélaga á norðanverðum fjörðunum og landshlutasamtökunum. Raunar er okkur í nefndinni kunn þeirra afstaða í málinu en við höfum líka tækifæri til að boða þessa fulltrúa til okkar á nefndardögum 15., 16. og 17. janúnar.

 

Hvað þingmenn kjördæmisins varðar er ljóst að þingmenn utan nefnda eru alla jafna ekki boðaðir á nefndarfundi, nema helst að þeir gegni hlutverki í tilteknum nefndum v. þingmála eða hafi einhverja aðra sérstöðu. Því er ekki að heilsa í þessu tilviki. Auk þess hafa allir flokkar sinn þingfulltrúa í  nefndinni og hæglega unnt að miðla upplýsingum af fundinum til þingmanna kjördæmisins. Þingmennirnir geta líka haft beint samband við kjörna fulltrúa fyrir vestan.

 

Seinna svar:

 

Það er almenn regla að komast hjá innbyrðis rökræðum, jafnvel deilum, milli gesta á nefndarfundum. Það er ekki affarasælt að stefna gestum saman á fund þegar það er jafn augljóst og í þessu tilviki að sjónarmiðin eru andstæð í nánast öllum málsatvikum. Megintilgangur þessa fundar átti að vera, og varð sá, að hlusta á sjónarmið og rök þeirra sem vilja fara Þ-H leiðina og tilheyra nærsvæði hennar í einn stað, og í friði og ró, og svo aftur þeirra sem vilja sk. R-leið.

Hvorir fengu ríflega klukkustund til að skýra mál sitt og svara mörgum spurningum, nefndinni til mikils gagns. Eftir það komu fulltúar Vegagerðarinnar fyrir nefndina og gerðu slíkt hið sama og jafn gagnlega.

 

Ég tek full ábyrgð á að fara ekki eftir óskum um sameiginlegan fund einhverra fulltrúa byggðanna og þá væntanlega líka að fulltrúar Vegagerðarinnar ættu að sitja hann – og tel ákvörðun okkar, sem enginn nefndarmanna gerði athugasemd við fremur en fulltrúar sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar, hárrétta.

 

Spurt var um sáttamöguleika á fundinum með fulltrúum sveitarfélaga og var þar fátt um fína drætti. Verði reynt að ná sáttum er það verkefni t.d. Fjórðungssambands Vestfjarða og/eða þingmanna kjördæmisins, ekki (fasta)þingnefndar. Fram kom að brátt stefndi í íbúafund þar sem Vegagerðin kynnir sín sjónarmið og það gæti liðkað fyrir sameiginlegri lendingu íbúa og sveitarfélaga í öllu ferlinu. Það stefnir nú í aðrar áttir, að mínu mati. Því miður.

M. g. kveðju,

Ari Trausti Guðmundsson

  1. varaform. U/S-nefndar

 

DEILA