Anað út í ófæruna – Vestfirðingum til ómælds skaða

Þann áttunda mars á síðasta ári samþykkti hreppsnefnd Reykhólahrepps með 4 atkvæðum gegn 1 að „lleið Þ-H verði lögð til grundvallar í aðalskipulagstillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006 – 2018 vegna vegagerðar um Vestfjarðarveg 60, Bjarkalundur að Skálanesi.“

Þá var talið að komin væri loksins niðurstaða í val á veglínu. Í aðdraganda fundarins sagði sá eini sem var á móti, í opinberu viðtali, að málið þyldi ekki frekari tafir og að niðurstaða yrði að fást. Það kom svo í ljós að það átti bara við ef niðurstaðan yrði „rétt“ og Þ-H leiðin var ekki „rétt“. Hófst nú nýr tafaferill sem staðið hefur síðan og miðar að því koma í veg fyrir Þ-H leiðina. Í þessari viku er gert ráð fyrir því að  sveitarstjórnin  ógildi leiðavalið frá 8. mars 2018 og velji R leiðina, leið sem er óframkvæmanleg.  Þá verður málið í þeirri stöðu, að óbreyttu,  að ekkert mun gerast næstu árin.

Það er misskilningur hjá hreppsnefndarmönnunum á Reykhólum að þeir ráði vegagerð. Það er ríkið sem gerir það og Vegagerðin fyrir hönd þess rannsakar og velur leið. Ríkið á vegina , borgar þá og heldur þeim við. Sveitarfélagið leggur ekkert til. Sveitarstjórn getur neitað Vegagerðinni með því að gefa ekki út framkvæmdaleyfi og gera ekki viðeigandi breytingar á skipulagi.  En það þýðir ekki að Ríkið verði að leggja vegina eins og sveitarstjórnin mæla fyrir um.

Vegalög

Í 28. grein vegalaga segir eftirfarandi:

Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. [Skal Vegagerðin þegar við á leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu.]

Vegalög eru lög. Sveitarstjórnarmenn verður að hlíta lögum rétt eins og aðrir þegnar landsins. Þarna segir í fyrsta lagi að lega vegar skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar.  Tillagan liggur fyrir og er um Þ-H leið. Sú tillaga var unnin í samráði fyrir Reykhólahrepp og að kröfu hans.

rökstuðningur enginn

Þá segir í öðru lagi að sveitarstjórn skuli rökstyðja það sérstaklega ef ekki er fallist á tillöguna. Fyrir liggur að leiðtogar hreppsnefndar hafa samþykkt í skipulagsnefnd hreppsins að setja R leið inn á aðalskipulag. Þetta þarf að rökstyðja sérstaklega. En rökstuðingurinn er afar fátæklegur:

„Ljóst er að samfélagslegir hagsmunir Reykhólahrepps og umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R-leið. Undirritaðir telja að umhverfisáhrif Þ-H leiðar séu það umfangsmikil að sú leið verði aldrei fær“

Þetta stendur ekki undir því að geta kallast rökstuðningur. Umhverfismat fyrir R leiðina hefur ekki farið fram en þær athuganir sem gerðar hafa verið á fyrri stigum hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að umhverfisáhrif verði mikil og slæm. Eina leiðin til þess að vita betur er með því að láta framkvæmda fullburða umhverfismat. Það eru engin gögn sem styðja fullyrðinguna að umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R – leið. Meira að segja hreppsnefnd Reykhólahrepps andmælti ekki Vegagerðinni á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja frekari skoðun á umræddri leið á hilluna.

 

Seinni hluti rökstuðningsins er aðeins mat tveggja mat um að Þ-H leiðin verði aldrei fær vegna umhverfisáhrifa. Það er líka í andstöðu við fyrirliggjandi gögn og afstöðu flestra þeirra sem komið hafa að málinu.

umferðaröryggi

Þá segir í lögunum að sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillaga Vegagerðarinnar. Þetta liggur fyrir eftir öryggismatsúttekt á þeim fjórum möguleikum sem hafa verið nefndir. Þar kom Þ-H leiðin best út,  það er með mest umferðaröryggi. En R – leiðin kom langverst út, var sem sé hættulegasti kosturinn. Þetta þýðir einfaldlega að óheimilt er að velja R- leiðina. Það er lögbrot. Þeir tvímenningar hafa ekki lagt fram nein gögn um öryggi R leiðina sem breytir öryggismatsútektinni. Þeir einfaldlega láta sem lagaákvæðið komi þeim ekki við.

 

út í ófæruna

Gangi það eftir, sem virðist fyrirsjáanlegt, að hreppsnefndin samþykki tillöguna um R-leiðina kemur upp staða sem er algert einsdæmi.  Valin veglína sem enginn er til þess að framkvæma. Hefja þarf  ferli um breytingar á skipulagi og auglýsa þær. Þá mun Vegagerðin væntanlega mótmæla tillögunum og benda á vegalögin. Það er vandséð hvernig Skipulagsstofnun getur hleypt tillögunum áfram og mun ekki geta staðfest þær. Málið er sjálfdautt og á þá eftir að líta til andófs og mótmæla þeirra annarra sem leggjast gegn R – leiðinni.

Sveitarstjórnin hefur engan framkvæmdaaðila. Enginn sem vill leggja veginn, enginn sem borga umframkostnaðinn, enginn til þess að standa straum af kostnaði við umhverfismat og skipulagsbreytingar. Kostnaður við Þ-H leiðina er orðinn um 430 milljónir. Hver ætlar borgar hundruð milljóna króna við algerlega nýtt ferli sem mundi taka mörg ár? Svarið er skýrt. Enginn. Ekki einu sinni Hagkaupsbræður eða annað innlent auðvald. En Vestfirðingar munu líða fyrir þvermóðskuna.

Kristinn H. Gunnarsson.