Álit væntanlegt frá ráðgjafanefnd um blóðgjafaþjónustu

Ráðgjafanefnd um fagleg málefni í blóðbankaþjónustu mun í kjölfar fundar 17. janúar næstkomandi, skila Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra afstöðu sinni til þess hvort slaka beri á þeim reglum sem gilda hér á landi um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá fagráðinu að ósk ráðherra.

Ráðgjafanefndin starfar á grundvelli reglugerðar um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, nr. 441/2006. Hlutverk nefndarinnar er að vera heilbrigðisyfirvöldum, Landspítala og blóðbanka til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að faglegum þáttum og öryggissjónarmiðum blóðbankaþjónustunnar. Heilbrigðisráðherra skipaði nefndina 15. október síðastliðinn. Formaður nefndarinnar er Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga.