Áfram veginn

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Þann áttunda mars á nýliðnu ári kom sveitarstjórn Reykhólahrepps saman og samþykkti með fjórum atkvæðum gegn einu að velja Þ-H leið inn á tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þessi ákvörðun var tekin með víðtæk rök í farteskinu og mikla undirbúningsvinnu. Nálgast má rökstuðning sveitarfélagsins í fundargerð sveitarstjórnar. Þar segir meðal annars:

„Reykhólahreppur telur ljóst að leið Þ-H hafi umfangsmeiri neikvæð umhverfisáhrif í för með sér en leið D2. Hins vegar hafi hún jákvæðari samfélagsáhrif og bætir samgöngur og eykur umferðaröryggi meira en leið D2. Þá er verulegur munur á kostnaði þessara framkvæmdakosta, sem er slíkur að hann er líklegur til að hafa afgerandi áhrif á tímasetningar samgöngubóta. Sveitarfélagið telur brýna þörf fyrir samgöngubætur, sem felst í auknu umferðaröryggi, aukinni greiðfærni og styttingu leiða. Sú þörf taki til mun fleiri hagsmuna en Reykhólahrepps eingöngu, þar sem hagsmunir ná til allra Vestfjarða. Óásættanleg bið hefur verið á samgöngubótum.“

Þetta var skoðun meirihluta sveitarstjórnar í mars í fyrra en þá var R leiðin ekki til umræðu. Umrædd R leið fellur á sömu rökum og D2 leiðin á sínum tíma, hún er of dýr og hún fullnægir ekki öryggiskröfum, þar að auki hefur hún ekki farið í umhverfismat svo áhrif hennar á náttúru og umhverfi liggur ekki fyrir.

Í umfjöllun um leiðarval bókar hreppsnefnd svo á þessum sama fundi:

„Beðið hefur verið eftir samgöngubótum í a.m.k. 15 ár og þörfin orðin verulega brýn að ekki verði unað við lengri bið. Loks eru jákvæð teikn um byggðaþróun og atvinnuþróun í landsfjórðungnum, sem mikilvægt er að nýta og styðja við. Því þarf að mati Reykhólahrepps að ráðast strax eða sem allra fyrst í samgöngubætur til að auka umferðaröryggi, greiðfærni og stytta leiðir. Það er brýn nauðsyn og brýnir almannahagsmunir á samgöngubótum á svæðinu. Í undirbúningi fyrir ákvörðun hefur leitað upplýsinga frá sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu um fjármuni til nauðsynlegra samgöngubóta. Samkvæmt þeim og upplýsingum frá Vegagerðinni mun leið D2 að öllum líkindum verða til þess að enn frekari tafir verði á framkvæmdum ef sú leið verði valinn, þar sem hún er um 6 ma.kr. dýrari en leið Þ-H. Ekki er um að ræða viðfangsefni sem snýr eingöngu að hagsmunum Reykhólahrepps. Hagsmunirnir taka til Vestfjarða og sunnanverðra Vestfjarða. Samfélagið hefur nú beðið eftir samgöngubótum í mörg ár.“

Og síðar í sömu bókun:

„Með hliðsjón af þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til skiptanna og þeirrar brýnu þarfar í samgönguverkefnum sem eru um allt land, telur sveitarstjórn miklar líkur á því að enn frekari tafir verði á framkvæmdum ef valinn er kostur A1 eða aðrir kostir. Það er orðið verulega aðkallandi að ráðast í samgöngubætur og samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri kann frekari töf á framkvæmdum að hafa í för með sér talsverð neikvæð áhrif á samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum og ógna þeirri jákvæðu samfélagsþróun sem má sjá merki um á svæðinu.“

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur nú tekið sér tæpt ár til að skoða betur valkosti og nú bíður fjórðungurinn gjörvallur með öndina í hálsinum eftir næsta fundi sveitarstjórnar. Það er nefnilega þannig eins og kom fram í bókun sveitarstjórnar að þetta viðfangsefni snýr ekki eingöngu að hagsmunum Reykhólahrepps, þeir taka til Vestfjarða allra.  Hvernig ætlum við að koma 50 þúsundum tonnum af laxi suður og hvað með umferðina sem kemur að norðan þegar Dýrafjarðargöng opna. Þurfum við næstu áratugi að sullast yfir stórhættulega hálsana eða læðast Barmahlíðina á blindhæðum og í kröppum beygjum í margföldum umferðarþunga frá því sem nú er.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

DEILA