Vestri vann öruggan sigur á Snæfelli

Vestri átti ágætan leik gegn Snæfelli í gær.

Þó nokkrum körfuboltaleikjum var frestað í síðustu viku vegna veðurs. Þeirra á meðal var leik karlaliðs Vestra við Snæfell en hann átti að vera síðastliðinn föstudag. Leikurinn var þess í stað spilaður í gærkvöld í Stykkishólmi og fór vel fyrir okkar menn sem sigrðuðu 91-72. Vestra hefur borist liðsauki en framherjinn Nökkvi Harðarson er genginn til liðs við liðið á ný og spilaði hann með í leiknum gegn Snæfelli. Samkvæmt Vestramönnum var þetta ekki besti leikur þeirra en þeir náðu samt mikilvægu stigi í hús.

Gunnlaugur Smárason skrifaði skemmtilega frásögn á karfan.is og við birtum hér hluta af henni. Hann skrifaði að Vestramenn væru með gríðarlega öflugt og hávaxið lið sem er erfitt að eiga við en heimamenn hafi ekki látið það á sig fá í byrjun leiks. „Það var allt önnur holning á Snæfell eftir að DeAndre Mason var látinn taka poka sinn fyrir rúmri viku. Ungu strákarnir létu sig vaða og það var virkilega gaman að sjá þá spila. Þeir eiga bara eftir að verða betri í vetur og er greinilegt að gleðin er að ná völdum.“

„Haukur Hreinsson mætti til leiks í Retro-Snæfellstreyjunni sinni og var það falleg sjón. Haukur steig sín fyrstu skref í körfubolta á parketinu í Hólminum. Vestramenn hafa að skipa frábæru liði og voru í raun aldrei í þeirri hættu að tapa leiknum þó svo að baráttuglaðir heimamenn létu þá hafa fyrir hlutunum. Yngvi er með þéttan hóp sem getur farið langt í úrslitakeppninni. Þeir eru nú einum sigri á eftir Þór og horfa án efa upp fyrir sig. Vestri fer langt á þéttleikanum, þeir vilja hægja á flestum liðum.“

Stigaskor Vestra: Nebojsa 21 stig, 5 fráköst, 6 stoðsendingar, Nemanja, 20 stig, 10 fráköst, 2 blokk, André, 19 stig, 12 fráköst, 4 stoðsendingar, 1 stolinn, 2 blokk, Gunnlaugur 10 stig, 2 stoðsendingar, 1 stolinn, Hugi 8 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar 4 stolnir, 2 blokk, Ingimar, 4 stig, 2 fráköst, 4 stoðsendingar, Nökkvi 4 stig, 2 fráköst, 1 stolinn, Hilmir 3 stig, 1 frákast, 1 stoðsending, Haukur 2 stig, 2 fráköst, 2 stolnir. Aðrir leikmenn komust ekki á blað en allir ellefu á skýrslu spiluðu og skiluðu sínu.
Næsti leikur er útileikur gegn Fjölni á föstudaginn kemur.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA