Vestfirskir listamenn: Lilja Björnsdóttir

Vestfirskir listamenn

Lilja Björnsdóttir

Keldudalur, Hraun, Móar, Arnarnúpur ofl.
Sandafell í bakgrunni. Dyrafjörður, Þingeyrarhreppur /
Keldudalur, Hraun, Moar, Arnarnupur ofl.
Sandafell in background, Dyrafjordur, Thingeyrarhreppur

Fædd 9. apríl 1894 Kirkjubóli Bæjarnesi. D. 20. september 1971 Hrafnistu Reykjavík.

Öndvegisverk: Augnabliksmyndir, 1935, Vökudraumar, 1948, Liljublöð, 1952.

Til lesarans.

Segja vil ég sinnisglöð

systur við og bróður:

Líttu  á þessi Liljublöð

lífsins reynzlugróður.

Þannig hljómar upphaf Liljuljóða, þriðju og síðustu ljóðabók hinnar vestfirsku Lilju Björnsdóttur. Eða Lilju skáldkonu einsog hún var jafnan kölluð. Sjálf ritaði hún sig ávallt frá Þingeyri í ljóðabókum sínum þó fædd væri í Austur-Barðastrandarsýslu. Ástæðan líklega sú að strax á fyrsta ári kemur hún í Dýrafjörð og dvelur þar næstu áratugi en heldur loks suður.

 

Ættgeng ljóðelska

Hún kom eigi velkomin í heiminn því faðir hennar hafði tekið feilspor og skroppið uppí rúm vinnukonunnar svo úr varð barn. Fátt hefur stúlkan að segja af móður sinni því hún kynntist henni ekki fyrr en hún sjálf var orðin fullorðin. Fóstra hennar, Ingibjörg Þorsteinsdóttir tók Liljunni einsog hún væri hennar eigin. Svo kært var á millum þeirra að Lilja tileinkaði fyrstu ljóðabók sína fóstru sinni. Af föðurnum er það að segja að Lilju fannst hún ávallt vera í öðru sæti á heimilinu. Þegar hún tjáði honum að draumur hennar væri að mennta sig hvað pabbinn að það væri alveg óþarfa peningaeyðsla. Hún ætti bara að læra fatasaum hér heima. Kannski hefur þetta átt eitthvað með það að gjöra að Lilja þótti snemma frökk og frjálsleg, lét engan vaða yfir sig. Ef einhver það reyndi svaraði hún fyrir sig og þá yfirleitt með beittri stöku.

Hvort allt hafi orðið vitlaust á heimilinu eftir hliðarspor bóndans eða hvað þá allvega pakka þau saman búslóð sinni en eins árs Liljan er pökkuð í heylaup. Búslóð og Lilju er svo komið á hesta og skundað yfir firði, fjöll og loks yfir sjálfa Glámuna og eigi numið staðar fyrr en í Keldudal í Dýrafirði. Þar settist fjölskyldan að á bænum Hrauni hvar Liljan ólst upp. Nokk fjölmennt var þá í Keldudal þó erfitt aðgengi væri millum dala og staða.

Þrátt fyrir að finnast hún vera í baksætinu í huga föður síns var hún af honum hænd sérlega á kveldvökunum á bænum. Þá byrjaði húsbóndinn að kveða og fara með rímur. Skáldskapinn drakk dóttirin í sig enda sagði hún á efri árum að mikil ljóðelska hafi verið í ættinni. Þarna má sannlega segja að börnin læri það sem fyrir þeim er haft.

Menntunarþrá Lilju var strax mikil en einsog margur veit var nám æskunnar í upphafi síðustu aldar af skornum skammti. Farkennarar komu í Keldudal og þá fannst Liljunni gaman. Einu sinni kom skemmtileg kennslukona sem lék á munnhörpu fyrir krakkana og þá var nú dansað í baðstofunni. Að dansi loknum voru nemendur alveg til í að læra hvort heldur það var lestur eða landsfræði enda allir búnir að fá sína útrás.

 

Hugurinn ávallt í ljóðinu

Árið 1917 ræður Lilja sig sem vinnukonu að Hólum í Dýrafirði. Þar kynnist hún mannsefni sínu, Jóni Erlendssyni og ári síðar ganga þau upp að altarinu. Svo vel vildi til að Jón hafði þá þegar eignast jörðina Bakka og þar byrjuðu þau að búa. Þá fæddust börnin en eigi gekk þar allt vel, misstu tvö en sex lifðu. Eftir áratug á Bakka fluttu þau á Þingeyri.

Lilja var allatíð mjög félagslynd og hvar sem hún kom tók hún þátt í hversskonar starfi félaga hvort heldur það var á Þingeyri eða í Reykjavík hvar hún bjó síðast. Það sýna líka ljóðin hennar því víða yrkir hún um ýmis tilefni félagasamtaka. Í þorpum er jafnan margt rætt sérlega í húsasundum og kaffistofum. Gróa á Leiti verður líklega aldrei atvinnulaus. Ein slúðursagan var að Lilja væri ekki bara félagslynd heldur og fjöllynd. Guðmundur auknefndur hvellur sagði þetta óhikað við hana. Víst var það mikill hvellur en í stað þess að senda hvellinn beint í Gvendinn. Dró skáldkonan nett andann og kvað svo:

Í það renna ættir grun,

þótt eitthvað sértu kenndur.

Svo lágt ég aldrei lúta mun,

að líta við þér Gvendur.

Þarna fékk Gvendur sannlega beittan hvell og skundaði af ballinu við hlátrahvell viðstaddra. Þrátt fyrir mikið annríki gaf Lilja sér ávallt tíma til að yrkja þó stundum hafi skort mjög á næðið. Ekki bætti úr skák að hún sagðist hafa haft dapra rithönd. Mikið var leitað til hennar með að semja erfiljóð einsog þá var móðins. Fyrsta eftirmælið samdi hún aðeins 17 ára og hélt því áfram allt til enda. Þegar þau fluttu suður hlakkaði hana mikið til þess að vera laus við erfiljóðin. Eigi var því nú að heilsa. Það hafði frést suður að hún væri lipur í þess háttar kveðskap og hún var einsog margur vestanmaðurinn kunni ekki að segja nei.

Lilja er sannlega ein af mætustu alþýðulistamönnum landsins og óskandi væri að einhver tæki sig til og gæfi út hennar ljóðasafn. Þannig lifa ljóðin best að þau fáist á bókverki.

Elfar Logi Hannesson

Aðalheimild: Hallfreður Örn Eiríksson viðtal við Lilju skáldkonu, Hrafnistu 11. október 1966.

 

 

DEILA