Varðveisla menningarminja og verðlaunavefurinn kollsvik.is

Frá Kollsvík. Mynd : kollsvik.is.

Minjastofnun Íslands veitti landeigendum á Láganúpi og í Kollsvík, bræðrunum Valdimari, Guðbjarti, Hilmari, Agli og Kára Össurarsonum, sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar, á ársfundi stofnunarinnar 28. nóvember 2018. Viðurkenningin er veitt fyrir metnaðarfullt grasrótarstarf við varðveislu og miðlun menningararfs í Kollsvík.

Á meðal þeirra verkefna sem landeigendur í Kollsvík, með Valdimar Össurarson í fararbroddi, hafa unnið í þágu menningarminja á svæðinu, er gerð heimasíðunnar kollsvik.is þar sem finna má fjölbreyttan fróðleik um sögu, náttúru og minjar í víkinni.

Einnig hafa þeir séð um merkingu gönguleiða í Kollsvík og uppsetningu fræðsluskilta um sögu, fornminjar og mannvirki ásamt söfnun upplýsinga um óáþreifanlegan arf á borð við örnefni, þjóðhætti og safn málfarssérkenna sem varðveist hafa á svæðinu.

Jafnframt hafa þeir staðið að varðveislu og viðhaldi gamalla mannvirkja í Kollsvík og hafa hlotið styrki úr húsafriðunarsjóði til tveggja slíkra verkefna.

Annars vegar til endurbyggingar steinhlaðins torfkofa; Hesthússins á Hólum í landi Láganúps sem líkur eru til að upphaflega hafi verið reistur um miðja 17. öld. Ekki er vitað um eldra hús á landinu sem staðið hefur frá upphafi, og þjónað sínu hlutverki fram á þennan dag.

Hins vegar hafa þeir hlotið styrk til viðhalds hlaðinna garða á Grundabökkum í landi Láganúps, þaðan sem útgerð hófst mjög snemma. Garðar eru örnefni yfir hinn mikla og forna garð sem liggur með sunnanverðum Grundabökkum í landi Láganúps. Þar var áður Láganúpsver, sem um margar aldir var ein stærsta verstöð sunnanverðra Vestfjarða, en lagðist af í byrjun 18. aldar. Útgerð hófst síðar í Kollsvíkurveri, norðar í Kollsvíkinni. Fyrsta gerð garðanna má ætla að sé mjög forn en þeir voru hlaðnir í núverandi mynd um aldamótin 1900. Garðarnir hafa gegnt mismunandi hlutverkum tengdum sjósókn og búskap á jörðinni, meðal annars sem vörslugarðar, aðhald til fjárrekstra, þurrkgarðar, skjólgarðar, matjurtagarðar og skotbyrgi.

Nú síðast hafa aðstandendur svæðisins hlotið framlag úr samgönguáætlun árið 2018, til að koma upp sjóvarnargarði til verndunar áðurnefndum görðum og annarra minja við Láganúpsver í sunnanverðri Kollsvík.

kollsvik.is

Vefurinn kollsvik.is er einstakur í sinni röð fyrir þær sakir hversu fjölbreytt efni er þar og ítarlegt. Tekin er fyrir: staðhættir og náttúra, byggð og atvinnusaga, mannlíf og frásagnir, menning og minjar orðasjóður. Síðan eru tvær vefmyndavélar, önnur í Láganúpi og hin í Kollsvík. Undir hverjum flokki er margvíslegur fróðleikur og greinilegt er að lögð hefur verið mikil vinna í að taka hann saman og gera aðgengilegan. Þar má meðal annars finna sögu ungmennafélaga í Rauðasandhreppi.

Eitt þeirra var ungmennafélagið Vestri og félagssvæði þess var ákveðið Víkurnar, þ.e. Kollsvík, Breiðavík og Látrar; einnig Hænuvík og Keflavík. Nafnið var valið þar sem þetta væri vestasta ungmennafélag í Evrópu. Félagið var stofnað 17. september 1916 að Láganúpi. Voru stofnfélagar 24 og alls 33 á fyrsta starfsárinu.  Þá var einnig stofnaður tóbaksbindindisflokkur í Vestra. Árið 1917 gekk Vestri í Bandalag U.M.F. Vestfjarða. Félagið stóð fyrir sundkennslu, jólaskemmtun fyrir börn, ræktaði kálgarð svo eitthvað sé nefnt.

Lesendur eru hvattir til þess að kynna sér efni vefjarins kollsvik.is.

DEILA