Umferðartölur hunsaðar í skýrslu Viaplan

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps vakti athygli á því með bókun skömmu fyrir jól að Viaplan hefði í skýrslu sinni fyrir Reykhólahrepp um vegamálin hunsað umferðartölur á Vestfjarðavegi árið 2017 og teldi umferðaraukninguna mögulega vera villu. Segir sveitarstjórnin slíkt vera óafsakanlegt og óskiljanlegt.

Samþykktin í heild:

 

Í niðurstöðum valkostagreiningar Viaplan er réttur þeirra íbúa sem búa vestan við Reykhóla alvarlega sniðgenginn með því að hunsa umferðartölur á Vestfjarðavegi frá árinu 2017 þar sem veruleg aukning í umferð er talin möguleg villa en ekki aukning í atvinnuakstri eins og fyrirtæki hér á sunnanverðum Vestfjörðum geta borið vitni um. Slík nálgun á jafnmikið hagsmunamál og bættar samgöngur eru fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum er algjörlega óafsakanleg og óskiljanleg. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að tekið sé fullt tillit til hagsmuna íbúa og fyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum af bættum samgöngum og styttri vegalengd þar sem að öðrum kosti mun kostnaður af lengri akstri falla á þá notendur sem koma vestan að en ekki íbúa Reykhólahrepps. Slíkt er óásættanlegt á tímum baráttu við loftslagsbreytingar og hagræðingar í samgöngumálum.

DEILA