Þingeyri ekki inn á grunnnetinu í samgöngum

Mynd af grunnnetinu úr Samgönguáætlun 2019-33.

Fram kemur í samgönguáætlun 2019-2033, sem liggur fyrir Alþingi að Þingeyrarflugvöllur er ekki inn á svonefndu grunnneti í samgöngum. Sömu sögu er að segja um Þingeyrarhöfn.

Flugvellir á Vestfjörðum sem tilheyra grunnnetinu eru Bíldudalsflugvöllur, Ísafjarðarflugvöllur og Gjögur. Hafnir innan grunnnetsins eru Bjárnslækur (ferjuhöfn) og Bíldudalshöfn, Bolungavíkurhöfn og Ísafjarðarhöfn.

Uppbygging grunnnetsins, viðhald þess og rekstur er forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna
á samgönguáætlun. Þær hafnir teljast til grunnnets samgönguáætlunar sem um fara árlega meira en tíu þúsund tonn af vörum eða þar sem landað er meira en átta þúsund tonnum af sjávarafla, auk ferjuleiða og viðkomandi ferjuhafna.

Þingeyrarflugvöllur var opnaður við hátíðlega viðhöfn 19. ágúst 2006 eftir miklar endurbætur. Fyrir tveimur árum kom fram í svari Innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafney Magnúsdóttur, alþm. að síðast hefði verið lent á flugvellinum 12. ágúst 2015 og að völlurinn væri lokaður frá 15. október til 1. júní.

Ennfremur kom fram í svarinu að hægt væri að nota þingeyrarflugvöll í 9% til 15% af þeim tilvikum sem flug féll niður til Ísafjarðar. Þá sagði svarinu að töluverða fjármuni þyrfti til að á Þingeyrarflugvelli til þess að hægt væri að lenda þeim flugvélum sem notaðar eru í áætlunarflugi og er ekki ráðgert að fara í slíkar framkvæmdir.   

DEILA