Svar við grein oddvita Reykhólahrepps

Jóhannes Haraldsson

Sæll Ingimar og takk fyrir grein þína sem þú kallar „R – leið besti kosturinn“.

 

Ég verð nú að viðurkenna að álit þitt á niðurstöðu Valkostagreiningar kom mér ekki á óvart. Hitt stuðaði mig þó öllu meir að sjá röksemdafærsluna sem þú tíundar í greinarstúf þínum. Greinin þín og skýrsla Viaplan um valkostagreiningu bera þess vitni að höfundar þeirra vilja ekki, eða geta ekki, skilið þá staðreynd að annarstaðar en á Reykhólum býr fólk og að þar er líka samfélag. Lög um Samgönguáætlun, með sínum fimm markmiðum, voru ekki sett fyrir Reykhóla (hrepp) eingöngu, þau gilda fyrir allt Ísland. Þegar þú fullyrðir að greining Viaplan hafi það fram yfir vinnuaðferðir Vegagerðarinnar að taka á „öllum samfélagslegum þáttum“, ja þá veit ég hreinlega ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta. Annan eins samtíning á einkahagsmunum Reykhóla, enganvegin alls Reykhólahrepps, hef ég áður séð.

 

Hafi ætlun þín með skrifunum verið að reyna að sannfæra einhven í málinu og fá fólk til að líta R leiðina jákvæðari augum, þá get ég staðhæft að það hafi gjörsamlega mistekist. Svona viðhorf og upptalning á sérhagsmunum er ekki olía á eldinn heldur frekar bensín eða vetni.

 

En snúum okkur að grein þinni.

Það sem ég skrifa hér að ofan snýst að hluta um „samfélagslegu þættina“, en við er að bæta. Fyrir utan þá staðreynd að notkun íbúa Reykhólahrepps á væntanlegum vegi verður örfá prósent af heildarnotkun, þá skautar þú framhjá því að fyrir þá íbúa hreppsins sem búa sunnan Reykhólavegamóta, verður R leiðin lengri en ÞH leið, ætli þeir sér að nýta þá þjónustu, vestur á Fjörðum, sem þú talar um.

 

Öryggisþættirnir sem þú nefnir eru tveir. Um vegalengdir í skólaakstri þarf fátt að segja. Auðvitað viljum við öll að börnin okkar allra séu sem öruggust í sínu umhverfi og þurfi ekki að ferðast hættulegar leiðir til og frá skóla. Í því sambandi mætti þó benda á að ÞH leið er tilbúin til framkvæmda en R leið á byrjunarreit þannig að augljóst er að skólaakstur um Hjallaháls og Ódrjúgsháls verður aflagður mun fyrr með ÞH leið en ella.

 

Þegar kemur að útreikningum þínum á viðbragðstíma bráðaaðila verð ég að viðurkenna að ég ruglaðist talsvert í rýminu. Ef alvarlegt slys verður á leiðinni milli Patreksfjarðar og Reykhólasveitar er hægt að kalla út sjúkrabíla frá Hólmavík og Búardal, lækni frá Búðardal, og svo auðvitað hvortveggja frá Patreksfirði. Í mínum huga lengir það leiðina fyrir bráðaaðila að fara R leið miðað við ÞH leið. Mér vitanlega er hvorki læknir né sjúkrabíll staðsettur á Reykhólum. Þessi rök eru því vægast sagt sérkennileg.

 

Um „hagrænu þættina“ ætla ég eingöngu að gleðjast yfir því að þar er þó allavega minst á „íbúa Vestfjarða“ og er það vel. Hins vegar er verulega kaldhæðnislegt að minnast þar á „ hagræði við færri ekna aukakílómetra flutningabíla“ og „þjónustu sem íbúar vilja nálgast á sem auðveldastan og stystan hátt“.

 

Skrif þín um „umhverfisþættina“ sannfæra mig enn meira en verið hefur um að náttúruvernd nútímans er meira trúarbragðatengd en raunveruleg umhyggja fyrir umhverfinu. Til að byrja með hefur R leið aldrei farið í umhverfismat, sama hverju reynt er að halda fram. Allur samanburður og tilvitnanir í að R leið komi vel eða betur út í slíkum samanburði er því ekkert annað en bull, bæði í grein þinni og í skýrslu Viaplan. Einhverstaðar í íslenskufræðunum heitir R leiðin að þvera alla firðina í einu, ekki að þvera einn fjörð í staðinn fyrir þrjá. Það er verulega sérkennilega til orða tekið þar sem svæðið sem lendir innan brúar er margfalt stærra. Fjörðunum sem þveraðir eru er ekki lokað, fyrir inn og útstreymi, meðan á framkvæmdum stendur. Veggarðar eru ekki kláraðir fyrr en brýrnar sjálfar eru tilbúnar til að taka við sjávarföllunum. Hvort fyrirhugaðar brýr séu of langar eða stutta er svo annað umræðuefni. Mörg skrítin stærðfræðidæmi hef ég séð um æfina en en mikið stendur í mér að finna út hvernig val á lengri leið getur leitt til „færri ekinna kílómetra hjá flutningabílum“.

 

Að lokum vil ég benda á einn þátt sem ekki fer mikið fyrir í umfjöllun ykkar.

Mergurinn málsins er sá að í 20 ár eru sveitarstjórnir á Vestfjörðum búnar að vinna í sameiningu að bættu vegasambandi á þessum legg leiðarinnar. ÞH leiðin varð að lokum ofaná og er nú komin á framkvæmdastig. Það er lámarks virðing við samborgara sína að láta á það reyna hvort hún sé í höfn, hafi menn á annað borð einhverja minnstu umhyggju fyrir samfélögum annara.

 

Og sviðsmyndin sem blasir við íbúum vestan Reykhólahrepps er eftirfarandi. Það er nánast útilokað að R leið verið tilbúin það snemma að núverandi hreppsnefnd Reykhólahrepps nái að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir henni. Eftir næstu sveitarstjórnarkosningar gæti verið komin hreppsnefnd sem ekki vill fara R leið, og tekur einhverja allt aðra stefnu. Næsta hreppsnefnd hefur sama rétt til að kúvenda í málinu eins og núverandi. Skipulagslög sem gefa sveitarstjórn eins sveitarfélags alræðisvald yfir framkvæmdum sem snerta heilu landshlutana eru augljóslega mein gölluð.

 

Með kveðju.

Jóhannes Haraldsson

frá Kletti

DEILA