Starfshópur um innanlandsflug: fjórar ferðir niðurgreiddar

Starfshópurinn um innanlandsflug gerir tillögur um niðurgreiðslu farmiða í innanlandsflugi fyrir íbúa með lögheimili á ákveðnum svæðum landsins. Stefnt er að því að niðurgreiðslurnar hefjist í byrjun næsta árs.  Skilgreind verði svæði landsins þar sem íbúar, sem ferðast í einkaerindum, njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir (8 leggir) á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið. – Lagt er til að við ákvörðun svæðisins verði miðað við 200 – 300 km. akstursarlægð frá höfuðborgarsvæðinu eftir aðstæðum á hverjum stað.

Í skýrslu nefndarinnar segir um flugfargjöldin:

„Há flugfargjöld innanlands draga mjög úr getu almennings til að nýta sér flug sem ferðamáta og um leið hefta möguleika þeirra sem búa arri höfuðborgarsvæðinu til að nýta sér ýmiskonar þjónustu sem ríkið hefur ákveðið að bjóða aðeins upp á þar. Þá virka þau hamlandi á hverskonar atvinnuuppbyggingu, þar með talið á ferðaþjónustuna. Til að flugið verði raunhæfur valkostur sem almenningssamgöngumáti þarf að koma til umtalsverð lækkun á fargjöldunum. Til þess þarf ríkið að grípa inn í með afgerandi hætti. Um tvær leiðir er að ræða, að ríkið ákvarði hámarksfargjald á flugleið eða ríkið niðurgreiði flugfargjöld á markaði.“

Ekki liggur fyrir greining á kostnaði og öðrum áhrifum af því að beita þessari aðferð en gróflega má áætla að miðað við að 400.000 farþegar noti flugið á hverju ári þá gæti kostnaður ríkisins við að lækka verðið um 1.000 kr. fyrir alla farþega numið um 400 m.kr. á ári og er þá nefndin að gera ráð fyrir 12.500 kr meðalverði á farmiðann.

Þá segir nefndin í umfjöllun sinni um mögulegan kostnað:

„Til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn fari úr böndunum og skerða verði niðurgreiðsluna áður en árið er liðið er hægt að setja þak á niðurgreiðslurnar. Hægt er að setja krónutöluþak á hvern einstakling eða hámarksfjölda ferða sem er niðurgreiddur. Þannig er t.d. hægt að ákveða að hver einstaklingur fái að hámarki niðurgreiddar fjórar ferðir til að byrja með. Miðað við framangreindar forsendur, meðalverð á farmiða 12.500 kr., 50% niðurgreiðslu og 41.000 einstaklingar sem nýta sér þetta fer niðurgreiðslan að hámarki í 1.025 m.kr og ef allir 60.000 einstaklingarnir sem rétt eiga á niðurgreiðslunni nýta sér hana gæti kostnaðurinn farið í 1.500 m.kr.“

 

 

DEILA