Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019- hægt að senda tillögur að áhersluverkefnum

Vestfjarðastofa tilkynnir: Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 er sértæk byggðaáætlun fyrir Vestfirði en það verkefni er hluti af Sóknaráætlun landshlutaanna. Markmið Sóknaráætlunar landshlutanna er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans og landsins alls. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Samningur um Sóknaráætlun Vestfjarða var undirritaður 10. febrúar 2015. Vestfjarðastofa heldur utan um verkefnið fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum.

Þau verkefni sem m.a hefur verið unnið að síðustu ár:
•Ný námsbraut í Sjávarbyggðafræðum við Háskólasetur Vestfjarða ​
•Umhverfisvottun Vestfjarða ​
•Visit Westfjords
•Jarðvarmaklasi
•Lýðháskólinn á Flateyri​
•Vestfirðir 2035 – Sviðsmyndir ​
•Vestfirðingar – PR verkefni ​
•Greiningar á hagrænum og samfélagslegum áhrifum fiskeldis í Ísafjarðardjúpi​
•Rannsóknarklasi Vestfjarða ​
•Þekkingarsetur á Vestfjörðum

Nú er komið að því að huga að nýjum áhersluverkefnum fyrir árið 2019 sem vinna á árinu 2019-2020. Hérna er komið inn form þar sem hægt er að senda inn tillögu að áhersluverkefnum Sóknaráætlunar 2015-2019. Tillagan fer til Vestfjarðastofu þar sem starfsmenn munu skoða hana með það í huga hvort að hún verði lögð fram fyrir samráðsvettvang Sóknaráætlunar sem endanlega tekur ákvörðun um hvaða áhersluverkefni verða unninn.

Tillögur að verkefnum geta verið hugmyndir sem eru skammt á veg komnar eða vel útfærðar verkefnisáætlanir. Verkefnin þurf að uppfylla einhverjar af megin áherslum Sóknaráætlunar Vestfjarða sem eru t.d
•Aukin samvinna á milli sveitarfélaga
•Auka þjónustuframboð á Vestfjörðum
•Skapa jákvæða ímynda af Vestfjörðum
•Vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi
•Hækka menntunarstig á Vestfjörðum
•Auka fjölbreytileika starfa á svæðinu
•Verkefni sem lýtur að því að auðga mannlíf, menningu og menntun á svæðinu.

Áhersluverkefnin geta verið á sviði menningarmála, atvinnulífs, nýsköpunar, menntamála eða almenn byggðaþróunarverkefni sem ná til allra Vestfjarða eða ákveðinna svæða. Vestfjarðastofa hvetur þá sem telja sig hafa góðar hugmyndir sem lúta að markmiðum Sóknaráætlunar að senda inn tillögu.