R-leið besti kosturinn

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps.

Valkostagreining Viaplan um Vestfjarðarveg 60 sýnir á svart og hvítu að R-leiðin er langbesti kosturinn þegar kemur að veglagningu um Reykhólhrepp. Í valkostagreiningunni var farið yfir alla þá þætti sem við koma vegagerð í Reykhólahreppi og niðurstaðan er skýr, R-leið er besti kosturinn. Þegar farið er yfir tæknileg, skipulags, félagsleg, umhverfis og hagræna þætti kemur R-leiðin best út. Þá fylgir R-leiðin best þeim 5 markmiðum samgönguáætlunar sem kemur fram í lögum um samgönguáætlun. Í Valkostagreiningu Viaplan eru áhrif vegagerðar rýnd, ekki eingöngu eftir km fjölda og kostnaði eins og vegagerðin hefur hingað til aðeins gert, heldur eru allir samfélagslegir þættir teknir í myndina. Þetta eru afar mikilvægir þættir þegar taka á ákvörðun um jafn stórt mál eins og þetta.

Samfélagslegir þættir

Ljóst er að allar leiðirnar, sem bornar eru saman í valkostagreiningunni, stytta leiðina um sunnanverða vestfirði. Munurinn á leiðunum upp á þá styttingu er óverlegur eða um 2%. Þegar kemur hinsvegar að styttinguna Reykhólar við Vestfirði erum við að tala um allt annað. Þegar Dýrafjarðargöng verða tilbúin og farið yrði R-leiðin yrði akstursleið þeirra sem búa á Reykhólum til Ísafjarðar 175km í stað 246km sem hún er í dag. Möguleikar og kostir okkar sem búum í Reykhólhrepp að nýta okkur þjónustu og tengjast vestfjörðum betur eru ótvíræðir með R-leið. Sú þjónusta sem við höfum þurft að sækja til Reykjavíkur getum við sótt til Ísafjarðar. Leiðin til sýslumannsins sem staðsettur er á Patreksfirði styttist um 44km ef valin er R-leið. Samkvæmt valkostagreiningunni kemur R-leiðin líka mun betur út en aðrar þegar kemur að ferðaþjónustu, þjónustu hverskonar, vegaþjónustu og uppbyggingu á Reykhólum.

Öryggisþættir

Leiðirnar eru taldar koma nokkuð jafnt út hvað varðar öryggi en ennþá á eftir að rannsaka R-leiðina( A3 liggur í vegstæði A1 leiðarinnar sem hefur verið skoðuð). En við hljótum að skoða þætti eins og skólaakstur og aðgengi vegfarenda að bráða og heilbrigðisþjónustu. Skólaakstur skólabílsins sem er fyrir börn sem fara í Gufudalssveit minnkar úr 108km á dag í 58km á dag með R-leið. Öll stytting á leiðum þar sem börnin okkar fara um daglega hlýtur að vega þungt þegar ákvarðanir eru teknar. Þá hlýtur líka að vega þungt aðgengi að neyðarþjónustu fyrir vegfarendur. R-leið opnar á styttingu upp á 44km fyrir bráðaaðila að koma á vettvang sem er 22km styttra en Þ-H leið ef slys yrði á versta stað milli Reykhóla og Patreksfjarðar, þetta hlýtur að vega mjög þungt þegar tekin er ákvörðun um leið.

Hagrænir þættir

Allar leiðirnar sem teknar eru fyrir í valkostagreiningunni bera með sér hagræði fyrir íbúa á Vestfjörðum og er lítill munur milli leiða eða um 2%. Þó er ljóst að R og A3 hafa langmest áhrif fyrir íbúa Reykhóla. Aukin umferð kallar á aukna þjónustu, aukin þjónusta kallar á fjölgun íbúa. Byggðarþróun hefur staðið í stað í Reykhólahrepp síðastliðin 20 ár en þar áður fækkaði talsvert í hreppnum. Það hlýtur að vera metnaðarmál hverrar sveitarstjórnar að íbúum fjölgi og samfélagið verði sjálfbært þannig að þjónustustig sé á pari við það sem best þekkist. Fyrirtæki og fjölskyldur horfa til þess þegar valin er staður hvernig þjónustustigið er. Þá fellst í því mikið hagræði að flutningbílar þurfi ekki að keyra 30 auka kílómetra til að komast að þéttbýlinu. Þó svo að Reykhólahreppur sé landbúnaðarhérað er ekki þar með sagt að íbúar og fyrirtæki þurfi ekki þjónustu og hana viljum við nálgast á sem auðveldastan og stystan hátt.

Umhverfisþættir

Valkostagreiningin sýnir okkur það að R-leiðin kemur mun betur út en Þ-H leið þegar skoðaðir eru umhverfis þættir. Auðvelt er að sjá afhverju það er þar sem í R-leiðinni er enginn nýlagning vega í gegnum svæði á náttúruminjaskrá og þverun fjarða er aðeins ein og er gerð yfir ál sem flytur 70-80% af sjó út og inn Þorskafjörð. Þ-H leiðin þverar hinsvegar þrjá firði sem verða lokaðir fyrir inn og útstreymi á meðan á framkvæmdum stendur og áhöld um hvort brýrnar séu nægilega langar fyrir full sjávarskipti auk þess sem ekki verður mögulegt að þangskera innan brúnna. Ljóst er að ekki má hrófla við svæðum sem eru vernduð nema brýna nauðsyn beri til, sú nauðsyn er ekki fyrir hendi þegar litið er til þess að önnur leið er í boði. Sú leið er í boði. Skv. Valkostagreiningunni eru líkur á því að eknum km. flutningabíla fækki meira við R-leiðina en við aðrar leiðir.

Ég vil hvetja allt áhugafólk vegagerðar um Reykhólahrepp og íbúa Reykhólahrepps að kynna sér vandlega valkostagreininguna enda gefur hún okkur möguleika á að festa hendur á allar þær upplýsingar og skýrslur sem gerðar hafa verið um Vestfjarðarveg 60 og hjálpar okkur að mynda skoðun á þessu stóra máli. Haldinn verður íbúafundur um málið 18. Desember.

Ljóst er að sitt mun sýnast hverjum enda gefa af sér ólíkir hagsmunir ólíka sýn. Sveitarstjórnum hvers tíma ber þó að gæta hagsmuna síns sveitarfélags og vanda til verka þegar kemur að ákvarðanatöku í stórum málum. Sveitarstjórnir verða að fylgja þeim lögum sem sett eru af Alþingi, ekki er hægt að skauta fram hjá lögum og treysta á að sett verði lög til að leysa okkur seinna úr snörunni. Þá vil ég hvetja fólk til að hafa umræðuna hófstillta en umfram allt málefnalega. Stóryrði, fúkyrði og persónuárásir hjálpa seint málstað hver sem hann er. Skýrsluna má nálgast hér http://www.reykholar.is/wwwreykholarisvest60/skra/1999/

Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps

DEILA