Ný heimasíða um loftgæði

Svifryksmengun í Reykjavík.

Umhverfisstofnun hefur tekið í notkun nýja heimasíðu sem miðlar upplýsingum um loftgæði. Hlekkurinn á síðuna er loftgæði.is  og má nota íslenska stafi í slóðina.

Nýja síðan er mun notendavænni en sú eldri. Helsti munurinn er að strax á upphafssíðunni fæst yfirlit um loftgæði á öllum mælistöðvum á landinu. Litakóði er notaður til að sýna ástand loftgæða á hverri mælistöð þannig að almenningur á auðveldara með að átta sig á stöðunni. Styrkur mengunarefna á hverri stöð ræður litnum á viðkomandi stöð á Íslandskortinu. Notendur geta svo með einföldum hætti skoðað nánar mæligildin fyrir viðkomandi stöð.

Gögnum um loftgæði á Íslandi er jafnframt miðlað á  evrópska loftgæðavefinn  þar sem má sjá stöðu loftgæða á Íslandi í samanburði við önnur lönd í Evrópu.

Opnum þessarar nýju síðu er fyrsta skrefið í að miðla upplýsingum úr nýju loftgæðaupplýsingakerfi (Airviro) sem starfsfólk Umhverfisstofnunar hefur unnið að uppsetningu á síðusta árið.

Á næstu mánuðum munu bætast við fleiri valmöguleikar á síðuna og ber þá helst að nefna dreifilíkan loftmengunarefna á völdum svæðum á landinu. Dreifilíkanið reiknar út styrk loftmengunar hverju sinni út frá gagnagrunni um losun loftmengunarefna og veðuraðstæðum hverju sinni. Upplýsingar um styrk loftmengunarefna í mælistöðvum segja í raun aðeins til um stöðu loftgæða á þeim punkti þar sem mælistöðin er staðsett en með dreifilíkani verður hægt að sjá hvernig loftmengun dreifist undan vindi. Því verður hægt að sjá mismunandi styrk loftmengunar á öllu því svæði sem dreifilíkanið sýnir. Þannig verður til dæmis hægt að sjá gróflega hver styrkur loftmengunarefna er á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Starfsfólk Umhverfisstofnunar vonast til að sem flestir geti nýtt sér þessa nýju heimasíðu til að fylgjast með loftgæðum í sínu nærumhverfi.

DEILA