Jólagjöf Ísafjarðarbæjar til fatlaðra ?

Magnús Reynir Guðmundsson.

Í fundargerð bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá síðasta fundi, nú í desember,

er m.a. að finna nýja gjaldskrá fyrir ýmsa þjónustu bæjarins.

Hækkanir virðast í flestum tilvikum hóflegar, sjálfsagt framreiknaðar frá fyrra

ári eins og lengi hefur tíðkast, en við lauslega athugun virðist gjaldskrá fyrir

akstur fatlaðra einstaklinga skera sig úr. Þar hækkar hver ferð úr 210 krónum

í 500 krónur eða um 138%. Undirritaður spurðist fyrir um það á bæjarskrifstofu

hvort hér væri ekki um einhvern misskilning að ræða en fékk þau svör að svo

væri ekki.

Á meðan hinar ýmsu gjaldskrár hækkuðu „eðlilega“ m.a. fyrir Áhaldahús,

Skíðasvæði og ýmislegt annað í bæjarrekstrinum, þá hefði bæjarstjórninni þótt

eðlilegt að leggja 290 króna aukagjald á hverja ferð fatlaðra frá n.k. áramótum.

Sumir þessara einstaklinga þurfa á tveimur ferðum eða fleiri að halda á hverjum

degi, svo þetta getur verið umtalsverður viðbótarkostnaður.

Því verður vart trúað að bæjarstjórnin okkar láti þessi „mistök“ standa, en verði

svo, þá er hér um einstaka jólagjöf til fatlaðra að ræða.

Það væri fróðlegt að heyra frá bæjarstjóra eða formanni bæjarráðs hvers vegna

þeir telja eðlilegt að færa fötluðum einum slíka jólagjöf sem hér um ræðir.

Magnús Reynir Guðmundsson

DEILA