Heiðar Birnir tekur við B71 í Færeyjum

Sandoyar Ítróttarfelag B71 er búið að ráða Heiðar Birni Þorleifsson sem þjálfara sinn.

Heiðar Birnir hefur verið yfirþjálfari Coerver Coaching hér á landi en hefur nú ákveðið að gerast þriðji íslenski þjálfarinn til að færa sig yfir í færeyska boltann á einu ári.

Mögulegt er að fleiri Íslendingar bætist í hópinn en Sigurður Jónsson er sagður vera á óskalista félaga þar í landi.

Heiðar tekur við liði B71 sem rétt slapp við fall úr B-deildinni í ár. Félagið á áhugaverða sögu að baki og hefur bæði unnið efstu deild og bikar á síðustu 30 árum.

Heiðar hefur starfað hjá Val, Dalvík/Reyni, Þrótti og KR hér á landi þrátt fyrir að vera aðeins 39 ára gamall.

DEILA