Hæstiréttur neitar að afhenta skjöl

Fréttavefurinn bb.is og blaðið vestfirðir sendu beiðni til Hæstaréttar um aðgang að gögnum í máli tveggja útgerðarfélaga gegn ríkinu varðandi úthlutun á veiðiheimildum í makríl. Í tveimur dómum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sjávarútvegsráðherra hefði gengið gegn ákvæðum laga þegar makrílkvóta var dreift á fleiri skip og báta en höfðu veiðireynslu á tilteknu árabili auk þess sem aflaheimildunum var aðeins úthlutða til árs en ekki ótímabundið.

Í dómnum kemur fram að útgerðarfélögin höfðu lagt mat á tjón sitt og vísuðu meðal annars í gögn frá endurskoðunarfyrirtæki því til stuðnings.

Til þess að glöggva sig á skaðabótakröfunni og átta sig á því hvernig hún er reiknuð út var óskað eftir þeim gögnum sem að henni sneru.

Hæstiréttur synjaði erindinu með þeim skýringum að Hæstiréttur hefur ekki heimild til að afhenda gögn úr ofangreindum málum. Beðið var um nánari skýringar og fengust þá þau svör að „í einkamálum er ekki heimilt að láta aðra en þá sem hafa lögvarða hagsmuni fá gögn úr málum.  Engar sérreglur gilda um fjölmiðla.“

DEILA