Guðjón Brjánsson: samstaða stjórnarflokkanna um veggjöld

Guðjón Brjánsson, alþm.

Guðjón Brjánsson, alþm. var spurður um afstöðu hans sem þingmanns kjördæmisins og Samfylkingarinnar til veggjalda.

Svar hans er svohljóðandi:

„nefndarálit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar var komið á lokstig á allra síðustu dögum þingsins fyrir jólahlé og áform um að keyra það í gegn og ég upplifði að það væri samstaða um þetta í ríkisstjórn. Ég tel að það hafi eingöngu verið fyrir hávær mótmæli minnihlutans að dregið var í land og fallist á að málið yrði tekið upp í janúar og rætt þá í þaula.  Þarna eru um grundvallar breytingar að ræða sem órædd eru með öllu í þinginu, þ.e. veggjöld á þremur meginumferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu og á fleiri stöðum á landinu ef marka má umræðuna og almennt að sett yrðu á gangagjöld.  Því hefur verið óspart veifað af talsmönnum ríkistjórnarinnar að þessi vending þýddi ekkert minna en byltingu í samgöngubótum og myndi flýta brýnum vegabótum, sérstaklega á landsbyggðinni. Fyrirkomulag, útfærsla og innleiðing, upphæð gjalda, hvernig þetta leggst á almenning, hvernig gjald verði innheimt, kostnaður við upptöku kerfisins, rekstur þess og ótal fleiri atriði hafa hins vegar ekkert verið kynnt eða rædd í þingflokkum, altént ekki þingflokkum minnihlutans og því erfitt að taka afstöðu til þessa stóra máls við svo búið.

 

Hvað varðar afstöðu Samfylkingarinnar, þá er ekki hægt að segja annað en að málið hafi fengið litla efnislega umfjöllun í flokknum að undanförnu.  Rétt er þó að minnast þess að í tíð Kristjáns Möller sem samgönguráðherra, þá var verið að velta fyrir sér möguleikum sem þessum. Í umfjölluninni síðustu vikur hefur líka verið drepið á það að hugsanlega yrðu gefin eftir einhver af þeim gjöldum sem þegar eru innheimt vegna bíla og bílaumferðar en ekkert útfært. Staðreyndin er sú að vegakerfið er bágborið og þörf á mikilli uppbyggingu.  Hvort að þetta er rétta leiðin, hvort skilgreina þurfi betur núverandi tekjustofna sem skapast af umferðinni og að þeir skili sér betur inn í samgönguinnviði, hvort skoða beri hvort stofna eigi til langtímalána til fjárfestinga á þessu sviði eða hvort endurskoða eigi gjaldtöku af umferð með nýjum hætti í ljósi orkuskipta eins og víða í nágrannalöndum hefur verið gert, það er hin mikla áskorun.

 

Allt þarf þetta tíma og umræðu og ég geri ráð fyrir að Samfylkingin gangi til þess samtals með opnum huga og útiloki ekki neitt fyrir fram annað en það að sanngirni þarf að ríkja og við sættum okkur ekki við álögur á einn hóp umfram annan og enn höldum við því á lofti að gjaldtaka á tilteknum svæðum á meðan verið er að greiða niður framkvæmdina, t.d. í jarðgöng þar sem valkostur er um fleiri en eina leið, það getum við fallist á, sbr. Vaðlaheiðargöng og eins og gert var með stofnun Spalar.

 

Í stuttu máli, þetta er órætt með öllu, útfærsla liggur ekki fyrir, við getum ekki fallist á flata gjaldtöku, t.d. í öll jarðgöng og það er óásættanlegt að þessi gjaldtaka komi til viðbótar þeim ýmislegu gjöldum sem bifreiðaeigendur greiða þegar og fara ýmist í umferðarumbætur eða alls óskyld verkefni, að ekkert verði dregið úr þessum þáttum til mótvægis.“

 

DEILA