Gera ráð fyrir 30 þúsund kr á heimili í akstursstyrk

Á fundi íþrótta- og tómstundanefndar 21. Nóvember síðastliðinn var lögð fram bókun frá fulltrúum nefndarinnar þar sem lagt var til að hægt yrði að sækja um aksturstyrk til móts við kostnað vegna aksturs barna frá Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði í íþrótta- og tómstundaiðkun. Fulltrúar flokkanna lögðu jafnframt til við bæjarstjórn að almenningssamgöngur yrðu endurskipulagðar og akstursstyrkur yrði tímabundin lausn uns heildstæðu kerfi væri komið á.

Margrét Halldórsdóttir sviðstjóri skóla- og tómstundasviðs áætlar gróflega að um 40-45 heimili myndu nýta sér styrkinn og að hann yrði kr 30.000 á heimili á ári. Styrkurinn er hugsaður fyrir foreldra barna í 1.-10. Bekk grunnskóla og að þau stundi íþróttir eða tómstundir sem ekki er hægt að stunda í þeirra næsta umhverfi.

Þá lagði íþrótta- og tómstundanefnd áherslu á að þetta yrði tímabundin lausn á meðan verið er að vinna að heildstæðu kerfi varðandi samgöngur í Ísafjarðarbæ. Þá er einnig mikilvægt að tómstundarútan sem ekur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur fari einnig inn í Skutulsfjörð þar sem ekki á að veita styrki til foreldra barna sem þar búa.

Miðað við tillögu íþrótta- og tómstundanefndar þarf að bæta við 1.300.000 krónuum inn í fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2019. Á fundi bæjarráðs í morgun fól ráðið bæjarstjóra að gera ráð fyrir kostnaði við frístundaaksturinn í fjárhagsáætlun 2019 og vísaði setningu reglna til íþrótta- og tómstundanefndar.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA