Framlög lækka til byggða- og samgöngumála

Breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar Alþingis lækkuðu framlög til bæði byggðamála og samgönguframkvæmda. Tillögurnar voru samþykktar fyrir helgi.

Til byggðamála lækka rekstrarframlög um 40 milljónir króna og verða 1.993,7 milljónir króna. Segir í skýringum meirihluta nefndarinnar að það sé vegna þess að aðkeypt vinna lækki um 40 milljónir króna.

Framlög til fjárfestingar í samgöngum lækka um 406,1 milljónir króna og verða framlögin eftir lækkun 24.544,2 milljónir króna. Lækkunin er tæplega 2%. Gefin er sú skýring að um sé að ræða 400 milljóna króna tímabundna lækkun hjá Vegagerðinni vegna breyttra forsendna fjárlagafrumvarpsins.

Meirihluti fjárlaganefndar tekur fram í áliti sínu að  framlög til samgöngumála hækki milli ára um 13,9% vegna átaks í samgöngumálum til næstu þriggja ára.

DEILA