Dýrafjarðargöng – vikuframvinda 49

Dýrafjarðargöng - 49. vika

Nú er hefðbundinn jarðgangagröftur kominn í rútínu á ný eftir öll útskotin sem lokið var við í síðustu viku. Göngin lengdust um 55,3 m í síðustu viku og er lengd ganga Dýrafjarðarmegin komin í 400,5 m sem er 24,4% af heildarlengd ganganna Dýrafjarðarmegin. Heildarlengdin er þá komin í 4.058,1 m, þar með eru 1.242,9 m eftir í gegnumslag.

Mestan hluta vikunnar voru styrkingar í þyngra lagi meðan að setlagið sem kom fram í þekju ganganna við útskot K gekk niður að gólfi. Undir lok vikunnar fór að glitta í næsta setlag í þekjunni, það er líklega þykkasta setlagið sem von er á í bili. Þá var skipt yfir í 3 m langar sprengifærur og byrjað að setja upp svokallaða sprautusteypuboga og forbolta, sjá meðfylgjandi mynd.

Efni úr göngunum var keyrt beint í vegfyllingu út frá göngunum, einnig var unnið við vegfyllingar úr námunni við Ketilseyri, því efni var keyrt í vegfyllingu á vesturenda svæðisins frá Dýrafjarðarbrú.

DEILA