Vinaliðarnir passa upp á að enginn sé skilinn útundan

Þessir flottu vinaliðar standa vaktina í frímínútum. María, Saga, Kristinn, Andri og Ólafur.

BB hitti á dögunum fimm flotta vinaliða og annan af verkefnastjórum þeirra í Grunnskólanum á Ísafirði. Þetta eru þau Ólafur Benóný, Kristinn Már, Andri Zakarías, Saga og María sem öll eru í 6. bekk. Þau segja að það sé gaman að vera vinaliði þó það geti verið smá erfitt stundum og það helst að fá alla með í leiki.

„Verkefnið snýst um að nemendur tilnefna önnur börn sem vinaliða en þeir sjá svo um þrautir og íþróttir og annað í frímínútum. Þetta er gert til þess að auka fjölbreytni í

Árni Heiðar íþróttakennari og umsjónarmaður vinaliðanna.

hreyfingu í frímínútum og til þess að minnka líkur á árekstrum, einelti og öðru slíku. Það er tilgangurinn með þessu, að hafa eitthvað í boði fyrir alla,“ sagði Árni Heiðar Ívarsson, íþróttakennari í Grunnskólanum Ísafirði en hann og Atli Freyr Rúnarsson eru umsjónarmenn verkefnisins.

„Þetta er þriðja árið sem við erum með verkefnið og það gengur vel,“ segir Árni Heiðar ennfremur. „Við höfum tekið eftir að það er minna um einelti og árekstra úti í frímínútum, en sá tími og tíminn í búningsklefum til dæmis, eru staðir þar sem að krakkar lenda frekar í einelti og einhverju veseni. Það er orðið minna um það.“

Árni segir að vinaliðaverkefnið sé til þess gert að meira sé í boði í frímínútum heldur en bara til dæmis fótbolti. Þó þau sem vilja vera í honum megi það að sjálfsögðu. Öll börn eiga kost á því að vera vinaliðar en verða þá líka að standa sig vel og vera góð við önnur börn og kunna að bjóða öðrum með í leiki. Þegar hvert vinaliðaverkefni byrjar fara vinaliðarnir á námskeið hjá þeim sem sér um verkefnið á landsvísu. Þar eru börnunum kenndir leikir og þrautir en jafnframt er farið yfir grunngildin á bak við verkefnið, svo sem framkomu við aðra og hvernig er hægt að bera sig að við að fá aðra með í leiki.

Þau Kristinn Már, Ólafur Benóný, Andri Zakarías, Saga og María útskýrðu verkefnið fyrir blaðamanni í stuttu máli. „Það er að vera með stöðvar úti svo krökkunum leiðist ekki,“ sagði Ólafur Benóný og Saga bætti við: „Þá getum við leikið svona leiki eins og brotinn gluggi og stórfiskaleik.“

„Mér finnst skemmtilegast í brotinn gluggi,“ sagði Andri og Ólafur Benóný útskýrði skipulagið enn frekar: „Það eru kannski 2-3 vinaliðar í einum hóp og eru með eina stöð og passa að skilja engan út undan. Og ef það eru kannski nógu margir á einni stöð þá getur einn farið á aðra stöð að hjálpa til við að fá krakka með.“

Kristinn Már sagði að þau væru dugleg við að hóa í krakka í leiki sem væru einir og þau væru ekki feimin við það, þó Andra fyndist það stundum örlítið krefjandi því krakkarnir væru ekki alltaf til í leikina. Öll börnin töldu að þetta væri mjög gott til að vinna gegn einelti en Kristinn taldi að verkefnið virkaði ekki alltaf, „það eru alltaf einhverjir sem nenna ekki í leiki og vilja hrekkja í staðinn.“ Þessir flottu krakkar vissu ekki lausn á því vandamáli en voru mjög sammála um að það að vera vinaliði gæfi þeim mikið og hjálpaði til við að vinna gegn stríðni í frímínútum. María tók einnig fram að í gegnum vinaliðaverkefnið fengi hún tækifæri til að leika við krakka sem hún hefði ekki leikið við áður svo það er enginn vafi á því að þetta verkefni er að öllu leyti mjög gott.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA