Vilja friðlýsingu nú en höfnuðu henni 2003

Fram hefur komið opinberlega að eigendur jarðarinnar Drangar í Árneshreppi hafa óskað eftir því að jörðin verði friðlýst. Segir í tilkynningu frá landeigendum að þeir vilji styðja við tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem hefur lagt til að stórt landsvæði sem tekur til Drangajökuls og nágrennis verði friðlýst. Slík friðlýst myndi hafa veruleg áhrif á áform um Hvalárvirkjun. Sveinn Kristinsson, einn eigenda jarðarinnar sagði í viðtali við RÚV morgunútvarp 23. nóvember sl. að eigendurnir hefðu rætt þetta um nokkra hríð og fylgst með sölu jarða til útlendinga og vaxandi ásókn sterkra aðila til að nýta vatnsföll og vatnasvæði til virkjana. og að þeim þætti mikilvægt  að einhver setti niður fótinn og segði  að landið væri svo mikilvægt og svo verðmætt „að við höfum ekki efni á því og leyfi til þess að ráðstafa því öðruvísi en þannig að komandi kynslóðir geti notið þess.“

Friðlýsing umrædds landsvæðis hefur áður komið til umræðu. Árið 2003 hafði þáverandi Umhverfisráðherra hug á því að stækka friðlandið á Hornströndum og Umhverfisstofnun kannaði afstöðu landeigenda til þess.

Þá lagðist Sveinn Kristinsson, fyrir hönd landeigenda gegn áformunum og áskildi sér allan rétt til mótmæla og annarra aðgerða til þess að hrinda slíkum áformum.

Í bréfinu er lýst nytjum landeigenda og það rökstutt að þau hafi verið í anda náttúrurverndar og sjálfbærni og því algerlega óþarft að hið opinbera ákveði að skipa málum á annan veg.

Friðlýsing óþolandi

Bréfinu lýkur með þessum orðum:

„Þess vegna leggur undirritaður til að fyrirætlanir um friðlýsingu Drangalands verði lagðar á hilluna. Ef miðað er við að reglur þær sem gilda um friðland á Hornströndum gildi um framangreint landssvæði er um slíka heftingu á athafnafrelsi manna að ræða að jafna má við eignaupptöku.Þar er nánast hver framkvæmd og athöfn háð leyfi óviðkomandi manna. Undir það jarðarmen munum við ekki fúslega ganga og áskiljum okkur allan rétt til mótmæla og annarra aðgerða til að hrinda slíkum fyrirætlunum. Friðlýsing Drangalands hefur engan tilgang varðandi náttúruvernd og umgengni við landið, en verður ábúendum óþolandi fjötur um fót við hefðbundna og eðlilega nýtingu náttúrugæða.“