Vestrakrakkar stóðu sig vel á Sambíómóti um helgina

Dagný Finnbjörnsdóttir þjálfari og yngsti stelpuhópurinn. Mynd: Vestri.

Hið árlega Sambíómót íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi fór fram um síðustu helgi. Líkt og fjölmörg undanfarin ár fjölmenntu ísfirskir körfuboltakrakkar á mótið undir merkjum Körfuknattleiksdeildar Vestra eins og sagt er frá á heimasíðu félagsins. Alls tóku um 30 Vestrakrakkar á aldrinum 6-9 ára þátt í mótinu í ár og hafa þeir sjaldan verið fleiri. Ætla má að yfir 700 þátttakendur hafi verið skráðir til keppni en leikið var í þremur íþróttahúsum hverfisins; í Dalhúsum, Rimaskóla og Fjölnishöllinni.

Keppt var í sex Vestraliðum undir stjórn þriggja þjálfara yngri flokka, þeirra Yngva Páls Gunnlaugssonar, Dagnýjar Finnbjörnsdóttur og Guðmundar Auðuns Gunnarssonar. Auk þeirra fylgdi stór hópur foreldra og annarra aðstandenda börnunum í mótið og hjálpaðist hópurinn að í umfangsmikilli dagskrá mótsins. Allir skemmtu sér hið besta en fyrir utan að spila fimm leiki hvert lið var keppendum boðið í pizzuveislu, bíó og á myndarlega Halloween kvöldvöku, sem fram fór í íþróttamiðstöðinni Dalhúsum á laugardagskvöld að aflokinni blysför keppenda.

Sýnilegar framfarir voru á milli leikja hjá öllum keppendum Vestra sem voru til mikillar fyrirmyndar á mótinu og félaginu sínu til sóma á allan hátt. Einn þjálfari Vestra hafði á orði að mót af þessum tagi væri á við 20 æfingar. Á mótum læra iðkendur allt um umgjörð leikjanna og fá betri tilfinningu fyrir reglunum og íþróttinni almennt.

Guðmundur Auðunn Gunnarsson með elstu Vestrastelpurnar á mótinu. Mynd: Vestri.
Guðmundur með næstelstu stelpurnar. Mynd: Vestri.
Yngvi Páll með hinn eldri strákahópinn. Mynd: Vestri.
Yngvi þjálfari með annað af tveimur strákaliðum í eldri hópnum. Mynd: Vestri.
Dagný þjálfari með yngsta strákahópinn. Mynd: Vestri.

Næsta stórmót þessa aldurshóps er hið margrómaða Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer fyrstu helgina í mars 2019.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA