Veiðigjöld 2018

Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur.

Síð­ast­liðið vor var reynt að koma lækkun veiði­gjalda í gegnum þing­ið. Fékk sú til­raun hægt and­lát eftir að flett hafði verið ofan af því. Gallar núgild­andi laga um veiði­gjöld eru þó slíkir eftir kukl við þau á und­an­förnum árum til að færa eig­endum útgerð­anna aftur það lít­il­ræði af auð­lind­arentu fisk­veiða, sem þjóðin fékk með lögum um veiði­gjöld 2012, að breyt­ing á þeim var óhjá­kvæmi­leg. Boð­aðri end­ur­skoðun lag­anna var því beðið með nokk­urri eft­ir­vænt­ingu.

Í því frum­varpi til laga um veiði­gjöld sem liggur frammi er margt til bóta. Snúið er aftur til þeirrar hugs­unar að hlut­verk lag­anna sé að skil­greina þann hluta virð­is­auka í sjáv­ar­út­vegi sem rekja má til auð­lind­ar­innar og að reikna þjóð­inni hlut­deild í hon­um. Frum­varpið þróar aðferð til þessa, sem er til mik­illa bóta frá því sem áður var, þótt ekki sé hún galla­laus.

Í frum­varp­inu er hins vegar ekki svarað þeirri spurn­ingu hvert sé rétt­mætt til­kall þjóð­ar­innar til arðs af auð­lind­inni. Í stað þess er sett fram reikniregla sem mið­ast við með­al­tal síð­ustu ára, nokk­urs konar “Sta­tus Quo” í því efni. Það skortir vilja, getu eða þor til að taka á stóru spurn­ing­unni í þessu máli, þ.e. hvaða til­kall á þjóðin til arðs af sinni eigin auð­lind? Frum­varp­ið, ef að lögum verð­ur, getur hins vegar skapað grunn fyrir mál­efna­lega umræðu um þá spurn­ingu í stað karps um tækni­legan titt­linga­skít eins og verið hef­ur.

Um aðferða­fræði o.fl.

Frum­varpið felur í sér að stefnt er að því að finna þann arð sem rekja má til réttar á nýt­ingu fisk­veiði­auð­lind­ar­innar eftir að greidd hafa verið aðföng, vinnu­laun og fjár­magns­kostn­aður þmt eðli­legt end­ur­gjald fyrir fjár­magn. Þetta er skil­yrði þess að unnt sé að telja veiði­gjöldin auð­linda­gjöld. Horfið var frá þessu með fyrstu breyt­ingum á lög­unum frá 2012 undir því yfir­skini að slíkt væri of flókið í fram­kvæmd. Í stað þess var stofn veiði­gjalda mið­aður við bók­halds­stærð sem ræðst af fjár­mála­legum froðu­færslum og er mót­an­legur af hags­muna­að­il­um. Þannig tókst að lækka veiði­gjöldin þar til skepnan sner­ist gegn skap­ara sínum og geng­is­hagn­aður kom honum í koll. Stór­út­gerðin krafð­ist breyt­inga, sem leiddi til óða­gots­ins í sum­ar­byrj­un.

Þótt frum­varpið byggi á sömu hugsun og lögin frá 2012 víkur það frá þeim í nokkrum atrið­um. Í fyrsta lagi er horfið frá því að leggja raun­hæft mat á þann hluta rentu í sjáv­ar­út­vegi sem fluttur er til fisk­vinnslu eða fisk­sölu vegna mark­aðs­brests og eign­ar­tengsla. Í öðru lagi eru frá­vik í því hvernig kostn­aður við fjár­magn er fund­inn eða áætl­að­ur. Í þriðja lagi er mis­munur í því hvernig rentu eða veiði­gjaldi er deilt niður á fiski­teg­undir og í fjórða lagi er skipt­ing fisk­veiði­rent­unnar milli útgerðar og eig­anda auð­lind­ar­innar með ólíkum hætti. Verður fjallað um hvert þess­ara atriða hér a eft­ir.

Auð­lind­arenta í veiðum og vinnslu

Auð­lind­arenta mynd­ast þegar aðgangur að nýt­ingu auð­lindar er tak­mark­aður t.d. nátt­úru­lega, svo sem í virkjun vatns­falla, eða með lögum eins og í úthlutun fisk­veiði­heim­ilda. Með óheftum aðgangi allra að auð­lindum og full­kominni sam­keppni mynd­ast ekki auð­lind­arenta.

Nær öll fisk­vinnsla í land­inu er í eigu útgerða eða öfugt eða útgerð og vinnsla er í eigu sama aðila. Stór hluti “er­lendra” kaup­enda íslenskra fiskaf­urða eru félög í eigu fisk­út­flyt­enda. Eigna­tengslin gera það mögu­legt að flytja rent­una frá veið­unum til vinnsl­unnar eða hinna “er­lendu” kaup­enda með verð­lagn­ingu í við­skiptum tengdra aðila. Án eign­ar­tengsla og með sam­keppni um kaup á fiskaf­urðum væri engin fisk­veiði­renta hjá vinnsl­unni eða kaup­endum afurð­anna. Mat á heild­ar­rentu af fisk­veiðum getur því ekki byggst á veið­unum einum saman og nauð­syn­legt er að leggja mat á rentu í veiðum og vinnslu í heild sinni.

Í lög­unum frá 2012 var farin sú leið að meta rentu í vinnslu og veiðum með sama hætti. Frá heild­ar­tekjum án inn­byrð­is­við­skipta var dreg­inn kostn­aður þmt fjár­magns­kostn­aður í veiðum og vinnslu. Þar sem öll rentan á upp­runa í veið­unum var henni jafnað niður á afla­magn­ið. Sumir sem ekki skildu eða vildu ekki skilja þessa aðferð héldu því fram að með þessu væri verið að leggja veiði­gjald á vinnsl­una sem er ekki rétt. Ekk­ert fyr­ir­tæki sem hafði ein­göngu tekjur af vinnslu en ekki veiðum greiddi veiði­gjald.

Í frum­varp­inu er vikið af þess­ari leið og rentan nær ein­göngu reiknuð út frá veið­un­um. Með því er litið fram hjá því að verð til vinnslu eða sölu milli tengdra aðila er lægra en eðli­legt er og rentan í fisk­veiðum van­reiknuð sem því nem­ur. Fisk­verð er oft talið vera a.m.k. 20% undir mark­aðs­verði fyrir botn­fisk­afla og að mun­ur­inn sé enn meiri fyrir upp­sjáv­ar­afla. Að milli­verð­lagn­ing eigi sér stað er  við­ur­kennt í frum­varp­inu og reynt að bæta úr því með því að reikna 10% álag á rentu upp­sjáv­ar­teg­unda. Þessi leið­rétt­ing er þó ófull­nægj­andi. Það eru ekki góð vinnu­brögð að líta fram hjá aug­ljósum stað­reyndum sem skipta miklu máli og nota ekki til­tækar aðferðir til að taka þær til greina. Með því er litið fram hjá hluta þeirrar auð­lind­arentu sem þjóðin á til­kall til og lögð blessun yfir vafa­samt atferli þótt lög­legt kunni að vera.

Hvati er þegar fyrir hendi til van­reikn­ings á sölu­verði með milli­verð­lagn­ingu m.a. vegna teng­ingar launa sjó­manna við fisk­verð en getur einnig verið fyrir hendi af skatta­legum ástæðum o.fl. Með því að láta ranga milli­verð­lagn­ingu einnig hafa áhrif á veiði­gjöld verður þessi hvati sterk­ari en áður. Það að taka ekki þá rentu sem flutt er til fisk­vinnslu eða sölu með í útreikn­ing veiði­gjalda mun því ekki aðeins ræna þjóð­ina hluta auð­lind­arent­unnar heldur einnig þrýsta fisk­verði niður og rýra þannig hlut sjó­manna og sjálf­stæðra útgerða sem eru háð sölu afurða til keppi­nauta sinna.

Fjár­magns­kostn­aður

Kjarn­inn í skil­grein­ingu auð­lind­arentu er að draga frá tekjum af nýt­ingu auð­lind­ar­innar allan kostnað sem nýt­ing­ar­að­il­inn hefur af starf­sem­inni. Hvað almennan rekstr­ar­kostnað varð­ar, þ.e. launa­kostnað og kaup á efn­is­legum aðföngum og þjón­ustu liggur hann fyrir í bók­haldi rekstr­ar­ins. Öðru máli gegnir um kostnað við að leggja starf­sem­inni til var­an­lega rekstr­ar­fjár­muni svo sem skip og veið­ar­færi, verk­smiðjur og hús­næði. Raun­veru­legur kostn­aður við það liggur ekki fyrir í reikn­ing­um. Til­svar­andi bók­halds­færsl­ur, afskriftir og vextir lúta reglum eða eru ákveðnar með þeim hætti að tengsl við raun­veru­legan kostnað geta verið lít­il. Af þessum ástæðum er litið fram­hjá bók­haldi en fjár­magns­kostn­aður reikn­aður eftir því hve mikið fé er bundið í rekstr­in­um, end­ing­ar­tíma fasta­fjár­muna og eðli­legum vöxt­um. Hjá skatt­yf­ir­völdum eru nákvæmar upp­lýs­ingar um fjár­fest­ingar fyr­ir­tækja ára­tugi aftur í tím­ann og því auðgert að meta stofn­verð fasta­fjár­muna og end­ing­ar­tíma þeirra og vextir eru mið­aðir við það sem almennt er.

Í frum­varp­inu nú er vikið af þess­ari leið og í stað­inn eru bók­halds­legar afskriftir lagðar til grund­vall­ar. Afskriftir eru vissu­lega eðli­legur þáttur fjár­magns­kostn­aðar en gera verður fyr­ir­vara á notkun bók­halds­legra afskrifta sem ráð­ast af reglum í skatta­lögum sem víkja oft­ast mjög mikið frá efna­hags­legum afskrift­um. T.d. eru skip sem hafa end­inga­tíma sem mældur er í tugum ára afskrifuð á 8 árum. Afskriftir geta því vikið mikið frá raun­veru­legri verð­rýrn­un, ofmetið hana og sveifl­ast mik­ið. Lík­legt er að þetta fyr­ir­komu­lag muni vera hvati til offjár­fest­inga.

Bók­færðir vextir með verð­bótum og geng­is­breyt­ingum er sján­lega ónot­hæfur mæli­kvarði á fjár­magns­kostnað auk þess sem skuldir fyr­ir­tækja ráð­ast af ýmsu öðru en fjár­fest­ingum í fasta­fjár­mun­um. Frum­varpið gerir rétti­lega ekki ráð fyrir að bók­færðir vextir verði not­aðir en í stað þess eru vextir áætl­aði vera sama fjár­hæð og afskriftir en svo vill til að á síð­ustu árum hafa þessar tvær stærðir verið áþekk­ar. Þó engin rök séu færð fyrir þess­ari nið­ur­stöðu er hún ekki að öllu órök­rétt. End­ing­ar­tími fasta­fjár­muna í útgerð er lík­lega ekki fjarri 25 – 30 árum, sem svarar til 3 – 4% afskrifta sem er ekki fjarri þeim vöxtum sem leggja má til grund­vall­ar. Þrátt fyrir það er þessi leið vafasöm og mun t.d. tvö­falda áhrif af sveiflun í fjár­fest­ingum og afskrift­um.

Þorskígildi og afkomu­stuðlar

Tor­skild­asti hluti frum­varps­ins er lík­lega það að reikna gjald­stofn veiði­gjalds sér­stak­lega fyrir ein­stakar afla­teg­undir í stað þess að deila veiði­gjaldi á þær með svoköll­uðum þorskígild­um. Aðferð frum­varps­ins er ekki flókin í reynd en krefst nokkuð umfangs­mik­illar gagna­öfl­unar og úrvinnslu sem ætti þó að vera RSK inn­an­handar að gera. Ekki virð­ist fræði­legur munur á þessum aðferðum til að jafna veiði­gjöld­unum niður á teg­undir en ákvörðun þorskígilda var ætíð miklum ann­mörkum háð og breyt­ingin er vænt­an­lega til bóta.

Skipt­ing auð­lind­arentu milli útgerð­ar­eig­enda og þjóðar

Þau ár sem liðin eru frá því að veiði­gjöld voru fyrst lögð á sem auð­linda­gjald hefur umræða um kjarna máls­ins, þ.e. eðli­legt end­ur­gjald fyrir nýt­ing­una fisk­veiði­auð­lind­ar­inn­ar, fallið í skugg­ann af þrasi um tækni­lega útfærslu. Einnig hefur verið reynt að halda því fram að með veiði­gjöldum sé verið að skerða hag bæj­ar­fé­laga eða svæða. Rök skortir fyrir slíkum stað­hæf­ing­um. Rétt ákveðin auð­linda­gjöld gera það ekki. Þau falla ein­göngu á eig­endur útgerð­anna og breyta ekki rekstr­ar­for­sendum eða því hvað starf­semin skilur eftir þar sem hún fer fram.

Enga umræðu um skipt­ingu rent­unnar er að finna í frum­varpi þessu þótt það gæti orðið grund­völlur fyrir umræðu um þetta meg­in­at­riði auð­linda­stefnu. Forð­ast er að ræða það. Engin til­raun er gerð til að rök­styðja álagn­ingu veiði­gjalda, hvert sé mark­mið þeirra og hvaða rök standi til þess að þau eigi að vera eins og frum­varpið grein­ir. Reyndar er gengið í öfuga átt þegar lagt er til að til­tölu­lega veikri mark­miðs­grein núgild­andi laga sé breytt á þann veg að í stað orða­lags­ins “til að tryggja þjóð­inni í heild hlut­deild í þeim arði sem nýt­ing sjáv­ar­auð­linda skap­ar” kemur “til að tryggja þjóð­inni í heild beina og sýni­lega hlut­deild í afkomu við veiðar á nytja­stofnum sjáv­ar.” Mark­miðið er sem sé ekki lengur að tryggja þjóð­inni hlut­deild í arði af eigin auð­lind heldur það eitt að hlut­deildin eigi að vera bein og gagn­sæ. Hvað svo sem það orða­lag merkir er ljóst að því marki verður náð hver svo sem veiði­gjöldin verða.

Ábyrgð­ar­menn frum­varps­ins koma sér undan því að ræða meg­in­at­riði máls­ins, skipt­ingu rent­unn­ar. Í stað mál­efna­legs rök­stuðn­ings er lagt til að litið verði til með­al­hlut­falls veiði­gjalda af reikn­aðri afkomu af veiðum skv. aðferð frum­varps­ins á síð­ustu 10 árum en í grein­ar­gerð­inni seg­ir: “Með frum­varp­inu er lagt til að gjald­hæð veiði­gjalds taki mið af vegnu með­al­tali veiði­gjalds sem hlut­falls af bak­reikn­uðum reikni­stofni frum­varps­ins fyrir árin 2009-2018. Orða má þetta svo að með þessu sé byggt á ákvörð­unum Alþingis um veiði­gjald á þessum árum, sem hafa verið umbrotaár í íslensku atvinnu- og stjórn­mála­lífi, en veiði­gjöld hafa verið til umræðu á flestum eða öllum lög­gjaf­ar­þingum þessa tíma. Til mik­ils er unnið ef unnt er að ná við­un­andi nið­ur­stöðu eða sátt um reikni­stofn og hæð veiði­gjalds með þessu sem staðið geti til nokk­urrar fram­tíð­ar.”

Með þessu er rang­lega verið að segja að frum­varpið feli í sér óbreytt ástand og gefið í skyn að það sé eðli­legt. Það tíma­bil sem valið er er þó fjarri því að vera eðli­legt og enn síður verður sagt að álagn­ing veiði­gjalda end­ur­spegli ein­hverja sátt um fjár­hæð þeirra. Fyrsti hluti tíma­bils­ins eru ár þegar veiði­gjald var ekki lagt á sem auð­linda­gjald en ákveðið í af gæslu­mönnum útgerðar í ráðu­neyt­inu og náði því aldrei að vera nema lít­ill hluti þess kostn­aðar sem rík­is­sjóður hefur af sjáv­ar­út­vegi. Þá koma tvö ár þar sem veiði­gjöld voru vissu­lega hugsuð sem auð­linda­gjöld en höfðu ekki náð því marki sem stefnt var að í þágild­andi lögum og síðusti hluti tíma­bils­ins eru ár þar sem hags­munir útgerð­ar­eig­enda hafa aftur náð yfir­hönd­inni og mulið gjaldið niður í lítið eitt.

Fingraför hags­mun­anna

Grein­ar­gerð frum­varps­ins ber þess merki að gæslu­menn hags­muna útgerða­eig­enda hafa, a.m.k. óbeint, stýrt penna þegar að skipt­ingu rent­unnar kom. Í henni er tekið undir flestar þær bábyljur sem ein­kennt hafa áróður útgerð­ar­manna gegn veiði­gjöldum allt frá upp­hafi. Það er til vansa að í grein­ar­gerð með jafn umdeildu og mik­il­vægu máli skuli settar fram, án rök­stuðn­ings, full­yrð­ingar sem eiga sér engan stað nema í áróðri þeirra sem vilja áfram sitja yfir hlut þjóð­ar­inn­ar. Stjórn­völd eiga að gæta hags­muna almenn­ings en ekki að ger­ast mál­pípa eig­enda útgerð­anna.

Í grein­ar­gerð­inni eru fjöl­mörg  dæmi um þetta en ein­ungis skal vitnað í rök­semd úr grein­ar­gerð­inni sem end­ur­ómar það sem útgerð­ar­menn hafa verið óþreyt­andi að básúna:  “Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er fjöl­breytt atvinnu­grein og sér­stak­lega mik­il­væg fyrir lands­byggð­ina. Verði veiði­gjöld ákveðin óeðli­lega há getur það dregið veru­lega úr frum­kvæði eða starfs­hæfni fyr­ir­tækja”. Vissu­lega er það rétt að sjáv­ar­út­vegur er fjöl­breyttur og mik­il­vægur fyrir lands­byggð­ina og landið í heild. En hvað hefur það að með veiði­gjöld að gera? Veiði­gjöldin lenda á eig­endum útgerð­anna þannig að skrán­ing­ar­staður félags eða skipa skiptir engu máli. Eig­endur stór­út­gerða eru yfir­leitt ekki búsettir á lands­byggð­inni. Engin rök­leg tengsl eru milli veiði­gjalda og launa sem greidd eru sem afla­hlutur eða sam­kvæmt kjara­samn­ingum eða tekna sveit­ar­fé­lag­anna af rekstr­in­um. Þessar aug­ljósu stað­reyndir koma þó ekki í veg fyrir að talsmenn sveit­ar­fé­laga láta hafa sig í að krefj­ast lækk­unar á veiði­gjöldum fyrir eig­endur að útgerð í Eyjum sem í gær voru í Reykja­vík en eru í dag komnir á Krók­inn.

For­skriftin að mál­flutn­ingi í grein­ar­gerð­inni er sótt í áróður sem stór­út­gerðin hefur verið óþreyt­andi að útbreiða á síð­ustu miss­er­um. Það má vissu­lega gleðj­ast yfir því að vel hefur tek­ist til í íslenskri útgerð, fisk­vinnslu og afurða­sölu. Það er hins vegar rangt að þakka það því að veiði­gjöld hafi ekki verið til stað­ar. Þessi þróun var löngu hafin og vel á veg komin þegar for­sendur til álagn­ingar raun­veru­legra auð­linda­gjalda urðu til eftir hrunið þegar arð­semi fisk­veiða hækk­aði snögg­lega.

Greina­gerð frum­varps­ins end­ur­ómar mörg stef úr grát­söng útgerð­ar­inn­ar. Veiði­gjöldin dragi úr fjár­fest­ingu í sjáv­ar­út­vegi, dragi úr tækni­legum fram­förum, skerði sam­keppn­is­stöðu, legg­ist á lands­byggð­ina o.fl. Stað­hæf­ingar þessar eiga það sam­eig­in­legt að vera hentifræði, styðja hags­munum mál­flytj­and­ans, eru auð­trú­an­legar og slá ryki í augu þeirra sem ekki hafa for­sendur eða tök á að rýna þær en eru ekki studdar neinum efn­is­legum eða fræði­legum rök­um.

Hver er rentan af fisk­veiðum og hver eiga veiði­gjöldin að vera?

Lög um veiði­gjöld hafa þann til­gang að veita þjóð­inni hlut­deild í rent­unni af fisk­veiði­auð­lind­inni. Það skýtur því skökku við að engin alvar­leg til­raun er gerð í frum­varp­inu til að greina hver þessi auð­lind­arenta er, hvorki með sjálf­stæðum hætti né með því að byggja á fyrri heim­ildum og athug­un­um. Engar upp­lýs­ingar er þar að finna um for­sendur “af­komu” reikn­ings­ins svo sem heild­ar­tekjur af veiðum og vinnslu, launa­kostnað og annan kostn­að, eign­ir, afskriftir og vext­ir. Þessar stærðir eru nauð­syn­legar til að vega og meta fjár­hæð veiði­gjalds­ins. Ekki hefði síður verið fróð­legt að upp­lýst hefði verið um hvernig þessar stærðir skipt­ast eftir stærð og grein­ing á eign­ar­haldi í útgerð og fisk­vinnslu. t.d. hvernig það skipt­ist milli lands­svæða.

Ekki er þó skortur á aðgengi­legum upp­lýs­ing­um. Hag­stofa Íslands hefur ára­tugum saman birt hag­tölur um sjáv­ar­út­veg og skatt­yf­ir­völd hafa í fórum sínum nákvæmar upp­lýs­ingar um fjár­hag sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, sem hefði verið hægt að láta vinna úr, m.a. um eignir þeirra. Upp­lýs­ingar þessar eru sér­stak­lega mik­il­vægar fyrir meg­in­at­riði laga um veiði­gjöld, þ.e. skipt­ingu auð­lind­arent­unnar milli eig­enda útgerðar og þjóð­ar­inn­ar. Frum­varpið gerir ein­fald­lega ekki grein fyrir því hvernig lögin upp­fylla meg­in­mark­mið sitt.

Þrátt fyrir skort á upp­lýs­ingum í grein­ar­gerð frum­varps­ins má fara nærri um þetta atriði. Sam­kvæmt frum­varp­inu eiga veiði­gjöldin að mið­ast við 33% af “af­komu” eins og hún er skil­greind. Má líta á hana sem nálgun við auð­lind­arentu. Sú nálgun er þó kerf­is­lega bjöguð og gróf­lega van­metin eins og að framan grein­ir. Stærsti þáttur þeirrar bjög­unar er vafa­lítið flutn­ingur tekna frá útgerð til vinnslu með óeðli­legri milli­verð­lagn­ingu og hugs­an­leg áhrif hennar á útflutn­ings­verð.

Áhrifin af milli­verð­lagn­ingu koma öll fram í rent­unni þar sem van­matið nær ekki til kostn­að­ar. Lækkun rent­unnar er því mikið meiri en ætla mætti af hlut­falls­legum áhrifum hennar á fisk­verð. Þannig má ætla að meint 20% und­ir­verð­lagn­ing leiði til nálægt 50% lækk­unar á rentu eins og hún er reiknuð í frum­varp­inu þrátt fyrir þá leið­rétt­ingu sem felst í 10% álagi á upp­sjáv­ar­afla. Raun­veru­legt álagn­ing­ar­hlut­fall veiði­gjalda skv. frum­varp­inu er því lík­leg til að vera um 15% af auð­lind­arent­unni. Hluta­skiptin eru því; eig­endur útgerða 85%, þjóðin 15%.

Til sam­an­burðar má taka að í lög­unum frá 2012 var stefnt að því að þegar þau væru komin að fullu til fram­kvæmda myndu veiði­gjöldin verða um 60% af rent­unni eftir að smærri útgerðu hefði verið veittur afslátt­ur. Veiði­gjöld skv þeim lögum voru afkomu­tengd og hefðu end­ur­speglað vel afkom­sveiflur í sjáv­ar­út­vegi. Þannig var rentan 2016 um 33 ma. kr. og hefðu veiði­gjöldin orðið uþb 19 ma. kr. en lækkað í 7,5 – 8 ma. kr. á árinu 2017 vegna sam­dráttar á tekjum á því ári og lækkun rent­unnar í um 12 – 13 ma. kr.

Með veik­ingu krón­unnar snýst dæmið við. Lækkun á gengi hennar um 10% ásamt lækkun á elds­neyti mun færa útgerð­inni auknar tekjur í íslensku krónum sem nemur nálægt 20 ma. kr. Það er lík­lega svipuð fjár­hæð og hækkun á inn­flutn­ings­verði á almennum neyslu­vörum heim­il­anna verður vegna geng­is­falls­ins. Veiði­gjöld sem standa undir nafni hefðu dregið úr þessum flutn­ingi tekna úr vasa almenn­ing til útgerð­ar­innar og skilað þjóð­inni 5 til 10 ma. kr. af geng­is­hagn­að­inum í stað 2 til 3 millj­arða sem hugs­an­legt er að breytt lög geri.

Loka­orð

Það er alls óvið­un­andi að þjóðin fái ein­ungis smán­ar­gjald fyrir afnot af auð­lind sinni, nán­ast ölm­usu sem rétt dugar til að greiða þann kostnað sem fylgir því að sjá til þess að auð­lindin verði ekki eyðilögð heldur nýtt með hag­kvæmum hætti. Við fram­lagn­ingu frum­varps­ins töldu margir þetta atriði þjónkun við hags­muni útgerð­ar­eig­enda sem von stæði til að yrði leið­rétt í þing­inu. Með fram­komnu áliti atvinnu­vega­nefndar er ljóst að hún hefur ekk­ert lært af sneypu­för sinni sl. vor og er slegin þeirri blindu að hlut­verk Alþingis sé ekki að gæta almanna­hags heldur ganga erinda sér­hags­muna­afla. Mark­laus fals­rök um sam­tíma­á­lagn­ingu eru engin afsökun í því efni og hags­muni smá­út­gerða hefði mátt tryggja án þess að færa stór­út­gerð­ar­mönnum marg­falda hags­bót um leið.

Þessi fyr­ir­hug­aða jóla­gjöf til rík­ustu þjóð­fé­lags­þegn­anna er for­dæm­ing­ar­verð. Sú fjár­hæð sem þeim er gefin árlega á næstu árum ef frum­varpið verður óbreytt að lögum er lík­lega álíka há og það sem til þarf til að standa undir kröfum stétt­ar­fé­lag­anna um hækkun lág­marks­launa. Þótt aum­ingja­gæska íslenskrar alþýðu sé þekkt er ekki víst að örlæti sem þetta eigi sér mik­inn hljóm­grunn hjá henni. Þess er ósk­andi að Alþingi sjái að sér og sam­þykki frum­varpið að öðru leyti en því sem snýr að gjald­hlut­falli veiði­gjalda og þau verði fest óbreytt þar til tími hefur verið til að ræða skipt­ingu auð­lind­arent­unnar með vit­rænum hætti og kom­ast að lýð­ræð­is­legri nið­ur­stöðu í því efni.

Indriði H. Þorláksson

 

 

DEILA