Úrskurðarnefndir í úttekt

Páll Hreinsson, forseti EFTA dómstólsins.

Páli Hreinssyni, forseta EFTA-dómstólsins, hefur verið falið að gera úttekt á starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda í stjórnsýslunni ásamt lögfræðingum í forsætisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið 1. október 2019.

Í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins segir að „viðmið sem höfð verða til hliðsjónar til að meta við hvaða aðstæður verði réttlætanlegt að setja á stofn sjálfstæða úrskurðarnefnd. Þá verður metið hvort ástæða sé til að samræma betur málsmeðferð slíkra nefnda, eftir atvikum með breytingum á VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt verður farið yfir álit umboðsmanns Alþingis þar sem fjallað hefur verið um sjálfstæðar úrskurðarnefndir og því svarað hvort ástæða sé til lagabreytinga af því tilefni. Loks verður metið hvort rétt sé að einhverjar nefndir verði lagðar niður eða sameinaðar og/eða verkefni færð að nýju inn í ráðuneyti.“

Vestfirðingum er í fersku minni úrskurðir úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem felli úr gildi bæði rekstrar- og starfsleyfi fyrir 17.500 tonna laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá gerði Umboðsmaður alþingis athugasemd við úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá 8. desember 2016  sem varðaði mál aldraðrar lamaðrar konu í Vesturbyggð. Sveitarfélagið hafði sett reglur sem takmörkuðu akstursþjónustu fatlaðra við skipulagt tómstundastarf og hafði úrskurðarnefndin staðfest þær reglur. Umboðsmaður komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að svona knöpp afmörkun þjónustu væri ekki í samræmi við lög.

Verður fróðlegt að fylgjast með tillögum sem fram kunna að koma um starf og hlutverk úrskurðarnefnda á stjórnsýslustigi.

DEILA