Umhverfisþing í dag – metaðsókn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Um 400 manns eru skráðir á Umhverfisþing sem haldið er í dag á Grand Hóteli og hafa aldrei jafn margir skráð sig á þingið. Þetta er í XI. sinn sem umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til Umhverfisþings. Að þessu sinni fjallar þingið annars vegar um nýja sýn og nýja nálgun í náttúruvernd og hins vegar um þjóðgarð á miðhálendinu og tækifærin fram undan.

Á þinginu verður meðal annars kynnt ný, viðamikil rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á efnahagsáhrifum friðlýstra svæða en rannsóknin er unnin að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir frá áhrifum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á samfélagið á Snæfellsnesi. Bóndi á Vesturlandi segir frá því hvernig landbúnaður og friðlýsingar geta haldist í hendur. Greint verður frá niðurstöðum rannsókna á viðhorfum almennings til þjóðgarðs á miðhálendinu sem og viðhorfum ferðamanna til miðhálendisins. Formaður nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs kynnir starf nefndarinnar og fulltrúar ungu kynslóðarinnar segja frá upplifun sinni af íslenskri náttúru.

Minnt er á að tillaga um miðhálendisþjóðgarð er nú í fyrsta sinn skrifuð í stjórnarsáttmála sem eitt af stefnumálum ríkisstjórnar á Íslandi og þverpólitísk nefnd vinnur að framgangi málsins. En í hverju fælist sérstæða þjóðgarðsins? Hver er afstaða almennings til hugmyndarinnar og hvað segir ferðafólk um miðhálendið?

Sérstakar pallborðsumræður verða um miðhálendisþjóðgarð. Þar verða í pallborðinu:

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Ingibjörg Eiríksdóttir, formaður Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Anna G. Sverrisdóttir, Samtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu, Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

DEILA