Þjóðfræðistofa á Ströndum og Sýslumaðurinn á Vestfjörðum fá styrk

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 30 milljónum króna úthlutað vegna fjarvinnslustöðva. Alls bárust 16 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 180 m.kr. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum.

Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Við mat á umsóknum var stuðst við þætti eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár. Fjögur verkefni fengu styrk. Tvö þeirra eru á Vestfjörðum. þar eru verkefni Þjóðfræðistofnunnar á Ströndum um menningararf og Sýslumaðurinn á Vestfjörðum til skönnunar á skjölum.

  • Þjóðfræðistofan á Ströndum. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa hlýtur styrk til að safna upplýsingum og skrá menningararf. Verkefnið verður styrkt um 6 m.kr. á ári í þrjú ár árin 2018-2020, samtals 18 m.kr.
  • Hin þrjú verkefnin, sem hlutu styrk voru:
  • Skönnun og skráning þinglýstra skjala. Sýslumaðurinn á Vestfjörðum hlýtur styrk til að skanna og skrá þinglýst skjöl. Verkefnið verður styrkt um 6 m.r. á ári í þrjú ár, árin 2018-2020, samtals 18 m.kr.
  • Fjarvinnsla á Djúpavogi. Minjastofnun Íslands fær styrk til að skrá minningarmörk. Verkefnið verður styrkt um 9 m.kr. árið 2018 og 12 m.kr. árið 2019, samtals 21 m.kr.
  • Gagnagrunnur sáttanefndabóka. Rannsóknarsetur HÍ á Norðurlandi vestra hlýtur styrkinn til að vinna að gagnagrunninum. Verkefnið verður styrkt um 9 milljónir kr. árið 2018.
DEILA