Það er nú þegar malbikaður vegur til Reykhóla

Bergþór Ólason er þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi. Hann er einn þeirra sem lét niðrandi ummæli falla um aðra þingmenn.

Það eru sennilega 14 ár síðan ég fór að fylgjast með áformum um veglagningu um Gufudalssveit. Fyrst sem aðstoðarmaður samgönguráðherra, síðar sem almennur áhugamaður um samgöngumál og nú sem þingmaður NV-kjördæmis. Saga verkefnisins er þyrnum stráð, eins og allir þekkja.
Verkefnið hefur alla tíð gengið út á að tengja Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp með forsvaranlegum hætti við grunnnet samgangna. Að bæta samgöngur um Vestfjarðaveg, tryggja öryggi og stytta vegalengdir.

Nú í vor varð sú undarlega þróun í málinu að það fór að hluta til að snúast um tengingu Reykhóla við umheiminn. Það var alveg nýtt, enda er til staðar vegur til Reykhóla, með bundnu slitlagi, sem ber bærilega þá umferð sem um hann fer.

Nýjasta útspilið í málinu, minnisblað Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar Reykhólahrepps, þar sem stofnunin leggur til að framkvæmd verði valkostagreining kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Stofnunin leggur sérstaka áherslu á að valkostaskýrslan taki á áhrifum vegagerðarinnar á þorpið á Reykhólum. Þetta útspil Skipulagsstofnunar og gildishlaðin framsetning, setur alla fyrri aðkomu stofnunarinnar að málinu í nýtt ljós.

Þegar matsskýrslur Vegagerðarinnar vegna verkefnisins eru skoðaðar er augljóst að samanburður valkosta hefur farið fram, ítrekað og ítarlega. Sem dæmi má nefna samantekt frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við Vestfjarðaveg, milli Bjarkalundar og Skálaness í Reykhólahreppi (sjá tengil að neðan). Samantektin er 32 síður og í henni eru valkostir bornir saman á flestum síðum. Það að kalla eftir valkostagreiningu í dag, með áherslu á atriði sem ekki er sérstaklega undir, virðist því miður vera enn einn leikþátturinn í því langdregna verki sem hefur haldið íbúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps í samgöngulegri sjálfheldu allt of lengi.

Það er ekki lengra síðan en í mars 2017, að Skipulagsstofnun taldi leið A1 (sem er líkust leið R/A3 af þeim sem fóru í umhverfismat) „hafa í för með sér talsverð til veruleg neikvæð umhverfisáhrif sem ekki sé hægt nema að takmörkuðu leiti að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum.“ Hvað breyttist í millitíðinni er undirrituðum óljóst.

Íbúar í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi hafa þurft að bíða allt of lengi eftir nauðsynlegum og eðlilegum vegabótum. Nú er mál að linni.

Við sveitarstjórn Reykhólahrepps vil ég segja: Ég skora á ykkur að fallast á tillögu Vegagerðarinnar um veglagningu samkvæmt svokallaðri Þ-H leið. Samgöngulega er ekki meira á nágranna ykkar leggjandi.

Bergþór Ólason
Þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi

Tengill á samantekt ofangreindrar frummatsskýrslu.

DEILA