Stuðningur við fjölbreytt starf Bandalags íslenskra listamanna

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Erling Jóhannesson forseti BÍL skrifuðu í morgun undir samstarfssamning til að efla listir um allt land.

Bandalag íslenskra listamanna eru regnhlífarsamtök fagfélaga listamanna í hinum ýmsu listgreinum. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Erling Jóhannesson forseti BÍL skrifuðu í morgun undir samstarfssamning hvers markmið það er að styðja við starfsemi félagsins. Bandalagið er ráðuneytinu til ráðgjafar um mál er m.a. varða listir og listamenn almennt, stefnumörkun, stuðning við ný listform og kynningu á íslenskri menningu á erlendum vettvangi.

„Það er vel við hæfi að skrifa undir þennan samstarfssamning nú. Í ár á félagið 90 ára afmæli og það var einmitt á 70 ára afmæli bandalagsins sem ráðuneytið skrifaði fyrst undir samning við Bandalag íslenskra listamanna. Það er þróttmikið og fjölbreytt menningarlíf í landinu og að því þarf að hlúa. Við viljum tryggja gott aðgengi að menningu og skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á því sviði og þar er Bandalag íslenskra listamanna lykilsamstarfsaðili,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af því tilefni.

BB spurði Elfar Loga, afkastamesta leikara Vestfjarða um álit á þessum samstarfssamningi:

„Allt sem stuðlar að eflingu atvinnulistir um land allt er af hinu góða. Bæði aðstæður til að stunda listina sem og aðgengi íbúa alls landsins að atvinnulistum. Það er snjallt að hefja vinnu með góðri samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna sem hefur einmitt góðan skilning á nauðsyn þess að atvinnulistir þrífist um land allt og að íbúar geti sótt viðburði í sinni heimabyggð. Fyrir tveimur stóð bandalagið í samstarfi við Act alone fyrir málþingi um atvinnulistir á landsbyggð. Það væri kannski gott upphaf á þessum dansi milli félagsins og ráðuneytis að halda ráðstefnu í hverjum landskjarna um atvinnulistir á landsbyggð með virkri þátttöku listamanna, íbúa, ráðherra, þingmanna og bæjar-og sveitarstjórnafólki,“ Elfar Logi uppá og vonandi nær tillagan eyrum þeirra sem orðunum er beint til.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA