Skipulags- og mannvirkjanefnd og umhverfis- og framkvæmdanefnd sameinaðar í eina

Nýtt deiliskipulag við Naustahvilft og þar af leiðandi breyting á aðalskipulagi yrði þá væntanlega viðfangsefni nýrrar, sameinaðar nefndar. Mynd: Visit Westfjords.

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar lagði fram tillögu til bæjarstjórnar á síðasta fundi þeirra þann 15. nóvember þess efnis að skipulags- og mannvirkjanefnd og umhverfis- og framkvæmdanefnd yrðu sameinaðar. Nefndin myndi þá kallast skipulags- og umhverfisnefnd og færi með málefni beggja núverandi nefnda. Samhliða sameiningunni verði skipulags- og byggingarfulltrúa veittar auknar heimildir til fullnaðarafgreiðslu mála.

Bæjarstjóra var falið að gera viðeigandi breytingar á samþykktum um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar og á erindisbréfi hinnar sameinuðu nefndar og leggja fram til samþykktar á bæjarstjórnarfundi. Enn fremur skulu gerðar viðeigandi breytingar á starfslýsingu skipulags- og byggingarfulltrúa.

Aron Guðmundsson, bæjarfulltrúi Í-listans, lagði fram bókun fyrir hönd Í-listans þar sem hann sagði að Í-listinn legðist gegn þeirri tillögu að skipulags- og mannvirkjanefnd annars vegar og umhverfis- og framkvæmdanefnd hins vegar, verði sameinaðar í eina nefnd.

Hann sagði ennfremur: „Á sínum tíma þegar ákveðið var að taka þessa málaflokka í sundur í tvær nefndir, var megin ástæðan sú að því að við best vitum, að þáverandi Umhverfisnefnd (eins og hún hét) var ofhlaðin verkefnum, fundir voru mjög langir og þungir og algengt að fresta þurfti málum vegna tímaskorts. Eru það aðstæður sem við viljum standa frammi fyrir aftur?
Umhverfismál hafa öðlast enn meira vægi síðastliðin ár. Við sem bæjarfulltrúar sveitarfélags sem er með silfurvottun frá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck eigum að vita það um mikilvægi umhverfismála í nútímasamfélagi og þær áskoranir sem bíða handan við hornið. Sveitarfélagið er að taka stór skref í umhverfismálum sem vert er að fylgja eftir með öflugu nefndarstarfi og stefnumótun í nefnd sem einblínir aðeins á þau mál sem falla undir umhverfismálaflokkinn.“

„Í þeim hluta sem snýr að skipulagsmálum, er heldur engin lognmolla framundan. Væntanlega þarf að hefja vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins innan nokkurra missera, áfram má búast við leyfisumsóknum vegna fiskeldis í fjörðum sem liggja að sveitarfélaginu og samkvæmt væntingum um fjölgun íbúa, þarf að halda áfram að skipuleggja lóðir og hverfi fyrir nýjar íbúðir og atvinnurekstur. Öll þessi atriði munu auka á vinnuálag skipulags- og mannvirkjanefndar. Hér er verið að tala um sameiningu nefnda í hagræðingarskyni en að sama skapi gæti sameiningin einnig hæglega haft veruleg áhrif til hins verra, á þá vinnu sem fram fer í umræddum nefndum,“ sagði Aron.

Forseti lagði fram breytingartillögu þess efnis að tillagan yrði send til vinnslu forsætisnefndarinnar og það var samþykkt með 8 atkvæðum gegn engu, en einn sat hjá.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA