Sigurvon er með símasöfnun fram til 1. desember

Krabbameinsfélagið Sigurvon hefur hafið söfnun til styrktar fjölskyldum sem glíma við krabbamein. Söfnunin fer fram í gegnum síma og er opin til 1. desember. Ef hringt er í númerið 907-3001, renna 1000 krónur til Sigurvonar, númerið 907-3003 gefur 3000 krónur og 907-3005 5000 krónur.

BB hitti Tinnu Hrund Hlynsdóttur til að heyra nánar um söfnunina og félagið. „Það sem Sigurvon gerir er að styrkja fjölskyldur. Bæði með ársstyrk og svo borgum við allan gistikostnað í Reykjavík þegar fólk þarf að sækja þangað vegna krabbameinsmeðferðar. Þegar vel hefur árað höfum við einnig reynt að styrkja fyrir jólin og það ætlum við einnig að gera núna og vera með símasöfnun. Við höfum aldrei prófað það og höfum ekki hugmynd um hverju það skilar, en vonandi einhverju. Við verðum með þrjú númer opin til 1. desember og allur ágóði rennur í styrkina,“ sagði Tinna Hrund.

Hún segir jafnframt að allir geti leitað til þeirra og allir félagsmenn Sigurvonar eigi rétt á styrk einu sinni á ári, auk þess sem félagið hafi reynt að styrkja aftur fyrir jólin. Tinna segir að Sigurvon virki að sumu leyti eins og Verkalýðsfélag, félagsmenn eigi rétt á þessum styrkjum enda borgi þeir félagsgjöld og enginn þurfi að líta á þetta sem ölmusu.

Sigurvon er fremur stórt félag miðað við höfðatölu með um 400 félaga. „Það eru töluvert margir að glíma við krabbamein hérna en við vitum auðvitað ekki um alla. Það leita ekki allir til okkar og það er auðvitað allt í lagi, það er val sem fólk hefur,“ segir Tinna. Hún segir jafnframt að það sem forsvarsmenn félagsins vilji helst er að fólk viti af þeim og geti komið ef það vill. Til dæmis verður haldið aðventukvöld hjá Sigurvon þann 29. nóvember þar sem allir eru velkomnir. „Það geta verið þung skref fyrir fólk að koma þar inn vegna tilhugsunar um sjúkdóminn og við skiljum það alveg. Og það er alveg eðlilegt að fólk sé ekki í félaginu Sigurvon. En það þekkja eiginlega allir einhvern sem er með krabbamein eða hefur verið með það. Og þetta er þannig leiðinlegur gestur að það verða svo margir fyrir þessu.“

Á aðventukvöldinu verður boðið upp á happdrætti, kökur, kaffi og heitt kakó og auk þess verður lifandi tónlist svo það er um að gera fyrir alla að mæta, kynna sér félagið og eiga notalega stund saman. Allir geta gerst félagar í Sigurvon og nánari upplýsingar má finna hérna.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA