SFS: veiðigjald hækkar um 5 milljarða króna

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í umsögn sinni til atvinnuveganefndar Alþingis að veiðigjaldið muni verða verulega hærra samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar en það myndi vera að óbreyttum lögum.

Í frumvarpinu segir að veiðigjaldið árið 2019 verði um 7,4 milljarðar króna. Hins vegar myndi veiðigjald fiskveiðiársins 2019/20 verða um 2,5 milljarðar króna samkvæmt gildandi reiknireglum. Þá yrði miðað við afkomu í sjávarútvegi á árinu 2017. Bent er á í umsögninni að samkvæmt riti Hagstofu íslands um hag veiða og vinnslu 2017 hafi afkoman versnað af fiskveiðum.  „EBITDA  fiskveiða dróst saman um tæp 43% milli áranna 2016 og 2017. Hreinn hagnaður fiskveiða lækkaði um 79% milli ára.“ segir í umsögninni. Þá segir í umsögn SFS :

„Mikilvægt er að raun rekstrartölur fyrir árið 2017 séu ræddar í samhengi við frumvarpið, en 2017 var slakt ár í sjávarútvegi. Áætlað veiðigjald 2019 nemur 107% af afkomu fiskveiða 2017 og er þreföld upphæð þess gjalds sem væri lagt á fiskveiðaárið 2019 til 2020 samkvæmt núgildandi lögum.“

DEILA