Punktar og upptaka af opnum fundi um fiskeldi

Seiðaeldissstöðin í Tálknafirði. Ef færa ætti eldið uppá land þyrfti 100 sinnum stærra hús og rafmagn á við 3 Mjólkárvirkjanir.

Þann 22. nóvember síðastliðinn fór fram óformlegur umræðufundur um fiskeldi á Hópinu í Tálknafirði. Að fundinum stóðu Arctic Fish og Arnarlax en tilgangur fundarins var að upplýsa fólk um stöðu mála varðandi laxeldið á svæðinu. Þá var sérstaklega tekið á þeirri undarlegu stöðu sem upp kom í september varðandi leyfismál fyrirtækjanna er varða eldi á lax í sjó í Patreks- og Tálknafirði. Sigurður Pétursson framkvæmdarstjóri viðskiptasviðs hjá Arctic Fish fór yfir stöðu mála og ferli síðustu mánaða en hann og Þorsteinn Másson frá Arnarlax stóðu síðan fyrir svörum frá fólki úr sal. Fundinum var einnig streymt í beinni útsendingu í gegn um Facebook þar sem fólki gafst færi á að spyrja spurning og koma með athugasemdir. Rúmlega 40 manns mættu á Hópið og um 30 manns horfðu á beina útsendingu frá fundinum en upptöku af honum má sjá hér.

Starfs- og rekstrarleyfi
Fram kom að úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi verið óvænt reiðarslag fyrir fyrirtækin. Þegar tekið er til greina að nefndin getur ákveðið að vera leiðbeinandi og að í öllu leyfisferlinu, sem spannar allt frá árinu 2012 hefur valkostagreining sem úrskurðarnefnin fer fram á, aldrei komið fram. Það kom öllum verulega á óvart að nefndin skyldi ganga svona langt. Hugsanlega hefði verið hægt að gera umhverfismatið betur en það hefði verið hægt að leiðrétta þá ágalla með því að vera leiðbeinandi. Þetta á ekki aðeins við um fiskeldi heldur getur gerst hvar sem er. Vel kom fram að ekkert var sett út á það sem fyrirtækin gerðu. Allt ferlið var í lagi en það er sett út á það hvernig stofnanir unnu.

Stjórnvöld geta verið skaðabótaskyld en fyrirtækin munu til samans kæra úrskurð úrskurðarnefndar og var það er eitt af skilyrðum þess að þau fengu bráðbirgðaleyfi. Fyrirtækin hafa nú fengið bráðabirgðarleyfi næstu 10 mánuði eða til 5. september 2019. Leyfin gefa fyrirtækjunum tíma til að endurbæta umhverfismatið og sækja um ný leyfi og er sú vinna nú í fullum gangi hjá báðum fyrirtækjum.

Heimild er til að framlengja bráðabirgðarrekstrarleyfi en ekki starfsleyfi. Í umsóknarferlinu um varanleg leyfi er mikill biðtími eftir stofnunum og sveitarfélögum sem þurfa að gefa umsagnir svo stærstur hluti af þessum tíma er ekki í höndum fyrirtækjanna. Algengt er að beðið sé um fresti við að veita umsagnir og/eða andsvör í ferlinu en það hafa verið gefið loforð um að í þessu ferli verði engir frestir veittir. En slíkir frestir hafa getað lengt umsóknarferlið sem á að vera í mesta lagi 2 ár í 5 ár. Það er lögbundið að umsögn þarf að koma frá sveitarfélögum en það hefur tekið lengstan tíma að fá svar frá þeim og á því þarf að taka hjá sveitarfélögum.

Valkostir og tækni
Þegar rætt er um valkosti verður að hafa í huga að valkostir árið 2012 voru allt aðrir en þeir eru í dag. Búnaður og tækni hafa þróast gífurlega og halda áfram að þróast. Tæknin í dag er þó ekki komin lengri en það að lokaðar kvíar þola t.d. ekki meiri ölduhæð en 1,5 m sem gengur ekki í því umhverfi sem er verið að vinna í núna.

Fyrirtækin geta hliðrað staðsetningum á kvíum og fært þær utar í firði. Aðstæður eru betri þar hvað varðar súrefni og hreinsun botns svo dæmi sé nefnd, auk þess sem betur fer um fiskinn þar. Frá árinu 2012 hefur eingöngu verið að skoðað þess konar eldi sem átti að fara út í þá. Úrskurður úrskurðarnefndar segir það stofnanir hefðu átt að spyrja sig hvort aðrir möguleikar en þá var rætt um væru mögulegir. En fyrirtækin hafa til dæmis ekki hugsað sér að vinna með ófrjóan fisk sem er gerður ófrjór með erfðabreytingum því það eru jú erfðabreyttar lífverur. En það er mikil og stöðug þróun og lokuð kerfi í sjó og geldlax verða að líkum veruleiki í framtíðinni og fyrirtækin hafa áhuga á þeirri tækni.

Landeldi og sjókvíaeldi
Margir eiga erfitt með að sjá af hverju er ekki hægt að færa allt sjókvíaeldi upp á land. Ef bornar eru saman stærðir og aðstæður í dag, má glögglega sjá hvers vegna það er ekki gerlegt. Í Norður Botni eru nú 4200 fm húsnæði sem er stærsta húsnæði á Vestfjörðum. Þar eru rétt rúmlega 3000 rúmmetrar af kerjum, sem er einungis 1/10 stærðar einnar sjókvíar. Ef það ætti að framleiða 20 þúsund tonn inn í Norður Botni þyrfti að byggja 100 sinnum stærri stöð en er þar nú. Þar fyrir utan þyrfti sú stöð það mikið rafmagn, að virkja yrði á við 3 Mjólkárvirkjanir til að starfrækja hana.

Ef það væri raunhæft að byggja svona landeldisstöðvar yrðu þær heldur aldrei á Vestfjörðum. Þær yrðu byggðar við hliðná þeim mörkuðum sem verið er að selja á. Vestfirðir yrðu versti staðurinn því þar er ekki nægt land, nægilegt rafmagn eða vegir til að flytja vörur á markað. Það sem Vestfirðir eiga eru skjólgóðir, hreinir firðir í fjarlægð frá helstu laxveiðiám.

Dómstóll götunnar og fjölmiðlar
Mikið var rætt um dómstól götunnar og að eldisfyrirtækin eigi undir högg að sækja. Rétt mynd virðist sjaldnast birtast í fjölmiðlum og fyrirtækin hafa ekki verið dugleg að sýna sig og deila upplýsingum. Þetta tóku fyrirtækin til sín og ætla að bæta sig. T.d. er nú verið að vinna að gerð heimildarmyndar í samstarfi við N4 þar sem sýnt verður t.d. umhverfið við kvíar undir og yfir sjávaryfirborði.

Gagnrýni kom einnig á fjölmiðla að vera of duglegir við að taka viðtöl við andstæðinga sjókvíaeldis og þá sérstaklega fólk sem hefur ekki þekkingu á aðstæðum. T.d. núna nýlega með sænskan blaðamann sem ekki hefur þekking á íslensku umhverfi og þeim aðstæðum sem þar eru.

Fyrirtækin hafa bæði verið dugleg að bjóða fólki í heimsókn til sín og þá líka andstæðingum laxeldis og kæruaðilum. Þingmönnum og starfsmönnum stofnanna hefur sérstaklega verið boðið að koma en enn þann dag í dag hafa ýmsir aðilar ekki komið að heimsækja fyrirtækin til að kynna sér starfsemina þrátt fyrir endurtekin boð.

Bæði fyrirtækin tala um að hafa ekkert að fela og óska eftir auknu eftirliti í greininni. Nánast allir sem koma að skoða eldið hjá þeim segja að þetta sé töluvert frábrugðið því sem þeir héldu. Fólk kemur í heimsókn með vissar neikvæðar hugmyndir um eldið og nær undantekningalaust skiptir það algjörlega um skoðun við að skoða starfsemina.

DEILA