Opnar skartgripaverslun og opið verkstæði á Ísafirði

Á laugardaginn mun Ólafur Stefánsson gullsmiður opna skartgripaverslun og opið verkstæði á Fjarðarstræti 29 á Ísafirði. Ólafur er Hafnfirðingur en flutti vestur til að vera nær börnunum sínum sem búa á Flateyri. Hann hefur starfað sem gullsmiður í 20 ár og unnið fyrir stærstu skartgripaverslanir landsins en einnig vann hann tímabundið í Bandaríkjunum hjá Diana Kim England Goldsmiths.

„Ég kaus að líta a þetta sem tækifæri til þess búa í nánd við náttúruna og geta stundað áhugamálin mín meira og með börnunum. En ég er útivistarmaður og stunda fjallaskiði, fjallahjól og veiði með byssu og stöng svo eitthvað sé nefnt,“ svarar Ólafur þegar BB innir hann eftir ástæðu fyrir flutningum vestur á Ísafjörð. „Krakkarnir mínir elska lÍka að skíða og hjóla og hvar er betra að gera þetta en á Vestfjörðum? Ég finn það strax að hér er góður andi og ég hlakka til framtíðarinnar hérna.“

Dyrnar opna kl. 11.00 á laugardaginn hjá Ólafi og hann bíður fólki að koma með skartgrip til hans um helgina og láta hann pússa gripinn upp, fólki að kostnaðarlausu. Ljúfir tónar og veitingar verða í boði og það verður áhugavert að skoða hvað Ólafur er að smíða. Hann segist hafa góða reynslu á flestum sviðum fagsins og tekur að sér viðgerðir. „Ég hef mikið dálæti á steinum og nota þá gjarnan i hönnun mína,“ segir hann ennfremur.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA