Notendur þjónustu fyrir fatlað fólk eru ánægðir

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur afhent velferðarráðuneytinu niðurstöður rannsóknar sem unnin var fyrir ráðuneytið þar sem meginmarkmiðið var að afla upplýsinga um aðstæður fólks og barna sem nota þjónustu sveitarfélaganna sem ætluð er fötluðu fólki.

Ráðgert er að endurtaka rannsóknina 2021 svo unnt verði að bera saman svör og meta breytingar sem orðið hafa á þjónustunni og aðstæðum fatlaðs fólks á tímabilinu.

Lögð var fram könnun fyrir fullorðna þjónustunotendur og forsjáraðila fatlaðra barna til að fá upplýsingar um reynslu þeirra af aðgengismálum og þjónustu. Einnig voru lagðar fram spurningar fyrir úrtak almennings.

Helstu niðurstöður

Helstu niðurstöður meðal fullorðinna notenda þjónustu sveitarfélaga fyrir fatlað fólk eru að meirihluti þátttakenda er ánægður með þjónustuna sem það fær og ánægður með búsetu. Hins vegar er fjárhagur þátttakenda þýðingarmikill þáttur en þeir sem eiga erfitt með að ná endum saman meta aðgengi að opinberum byggingum, upplýsingum og þjónustu verr, eru síður ánægðir með hvernig þeir búa og eru frekar einmana. Þá telur rúmlega helmingur þátttakenda aðgengi að upplýsingum og þjónustu vera ábótavant.

Í niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir forsjáraðila fatlaðra barna kemur einnig fram að fjárhagur fjölskyldna er mikilvægur þáttur. Börn sem búa á heimilum sem komast vel af eru líklegri til að vera með einstaklingsbundna áætlun og líklegri til að hafa þurft að bíða skemur eftir viðeigandi stuðningi. Mikil breidd var í svörum þátttakenda hvað varðar bið eftir viðeigandi stuðningi en börn með hreyfihömlun þurftu að jafnaði að bíða skemur en börn með aðrar skerðingar. Forsjáraðilar barna í leikskóla eru að jafnaði ánægðastir með þjónustuna en foreldrar barna í grunnskóla síður ánægðir. Alls eru 71% forsjáraðila mjög eða frekar ánægð með þjónustuna sem börnin fá.

Í niðurstöðum könnunar meðal almennings á viðhorfum til fatlaðs fólks kemur fram lítil þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er töluverður munur á viðhorfi þátttakenda í garð ólíkra skerðinga þegar kemur að þátttöku fatlaðs fólks á mismunandi starfsvettvangi.

Skýrslan er 70 bls og skýrsluhöfundar eru Hrafnhildur Snæfríðar og Gunnarsdóttir
Guðný Bergþóra Tryggvadóttir.

 

DEILA