Mikil uppbygging hjá íslenska kalkþörungafélaginu

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Marigold á Íslandi.

Þegar hefur verið fjárfest fyrir hálfan milljarð króna á Bíldudal í stækkun kalkþörungaverksmiðjunna á þessu ári segir Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Marigot á Íslandi, sem er eigandi fyrirtækisins. Framleiðslugeta verksmiðjunnar á Bíldudal er nú 60 þúsund tonn á ári en leyfi er fyrir  85 þúsund tonna framleiðslu.

Þá er unnið að undirbúningi fyrir nýja verksmiðju í Súðavík sem mun afkasta 120 þúsund tonn á ári. Hún mun kosta um 3 milljarða króna.

Halldór var spurður að því hvernig gengi að fjármagna þessar framkvæmdir og þá er enn í fersku minni þegar Landsbankinn vildi ekki lána til verksmiðjunnar á Bíldudal á símum tíma nema að hún yrði reist á höfuðborgarsvæðinu. Þá var það erlendur banki sem fjármagnaði framkvæmdirnar.

Halldór svaraði því til að innlendur bankar væru spenntir fyrir samstarfi í dag. Auk  þess væri fyrirtækið fjárhagslega sterkt.  Fjármögnun virðist því ekki verða neitt vandamál.

Varðandi nýju verksmiðjuna í Súðavík sagði Halldór Halldórsson að ákveðið væri að ráðast í framkvæmdina en það væri skilyrði sem þyrfti að uppfylla. Það þarf að fá umhverfismat samþykkt, vinnsluleyfi, aðstöðu og rafmagn.

Unnið er að gerð frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögnum um skýrsluna í september 2017 og enn er beðið eftir einhverjum svörum. Halldór sagði ekki alveg ljóst eftir hverjum væri beðið. Hann segist hins vegar gera sé vonir um að þessi fari að ljúka og þá mun Íslenska kalkþörungafélagið skrifa matsskýrslu og senda hana til Skipulagsstofnunar sem hefur þá fjórar vikur til þess að gefa grænt ljós á hana. Það gæti verið fljótlega eftir áramótin sem þetta gæti legið fyrir, hugsanlega fyrr.

Þá fer málið til Orkustofnunar sem veitir námaleyfi úr kalkþörunganámunum í Djúpinu. Það leyfi verður hægt að kæra þegar þar að kemur og lögin eru svo úr garði gerð að kærendur þurfa ekki að hafa gert athugasemdir á fyrri stigum málsins. Komi fram kærur mun það hafa áhrif á framvindu verksins.

Halldór segir að ekki verði hægt að hefja byggingarframkvæmdir fyrr en nýja hafnarsvæðið hefur verið gert og efnið í því hefur sigið, en framkvæmdir taka langan tíma.

Varðandi rafmagn þá segir Halldór að það vanti rafmagn eins og staðan er núna. „Verksmiðjan mun þurfa 8 -12 MW og það eru bara 3 MW sem línurnar geta flutt. Við höfum ekki fengið svör um það hvenær rafmagnið gæti verið til staðar. Það þarf nýja línu frá Ísafirði til Súðavíkur.“ Spurður um Hvalárvirkjun minnir Halldór á viljayfirlýsingu fyrirtækisins og Vesturverks um kaup á rafmagni en verksmiðjan verði augljóslega risin á undan virkjuninni.  Aðspurður sagði Halldór það koma til greina að nota gas í stað rafmagns fyrst um sinn. Það væri verri kostur einkum vegna verulegra verðsveiflna á gasi. Þó hefði gasið undanfarin misseri verið samkeppnishæft við rafmagn.

 

 

DEILA