Mest grafið í hliðarrýmum í Dýrafjarðargöngunum

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í viku 47 við vinnu Dýrafjarðarganga.

Í vikunni var haldið áfram með gröft í fyrsta útskotinu Dýrafjarðarmeginn. Einungis var sprengd ein stutt færa, 2,8 m löng, í veggöngunum sjálfum í víkkuðu sniði en annars var grafið í hliðarrýmum. Í lok viku 47 var lengd ganganna í Dýrafirði 316,1 m sem er 19,2% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 75,0% af göngunum. Klárað var að grafa fyrir neyðarrými og tæknirými, samtals 32,9 m. Að auki voru grafnir 23,2 m í snúningsútskoti. Samtals voru því grafnir 56,1 m í hliðarrýmum og í heildina voru grafnir 58,9 m. Í veggöngunum og í snúningsútskotinu er um 1,0-1,5 m þykkt setlag í þekjunni sem kallar á auknar styrkingar ásamt því að farið er styttra í hverri sprengingu.

Efnið í göngunum hefur verið keyrt í vegfyllingar sem koma út frá munnanum og er búið að fylla í veginn á rúmlega 150 m kafla. Í Dýrafirði var einnig unnið við vegagerð á hinum enda vegarins við þverunina yfir Dýrafjörð. Þar er búið að fylla í veginn á tæplega 250 m kafla. Enn á eftir að hækka fyllinguna töluvert á báðum stöðunum.

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var klárað að styrkja hægri vegg ganganna. Liggur þar næst fyrir að hefja vinnu við lagningu fráveitulagna.

Syðri stöpull brúarinnar fyrir Hófsá var steyptur á miðvikudeginum.

Á meðfylgjandi myndum má sjá fyllingarvinnu við vegþverunina yfir Dýrafjörð og við munna ganganna í Dýrafirði, borun á fyrstu færunni í snúningsútskotinu, sprautusteypun yfir set og setið í snúningsútskotinu.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA