Menntamálaráðherra og fjárlaganefnd tryggja rekstur Lýðháskólans á Flateyri

Meirihluti fjárlaganefndar leggur í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðherra til fjárframlag af fjárlögum til Lýðháskólans á Flateyri. Í tillögu nefndarinnar segir að skólinn sé mikilvægur Flateyri og hafi þegar skapað mikil umsvif og sett svip á bæjarbraginn. Fjárlaganefnd felur mennta- og menningarmálaráðherra að gera formlegan samning við skólann og tryggja fjármögnun hans.

Nefndin leggur til 15 m.kr. framlag á fjárlögum en menntamálaráðherra mun á móti ráðstafa öðrum 15 m.kr. til skólans sem þannig eru tryggðar 30 m.kr. heildarframlag fyrir haustönn 2019. Eins og fram hefur komið er skólinn fullfjármagnaður með sjálfsaflafé fram til útskriftar nemenda í vor en með þessu skapa stjórnvöld lýðháskólanum rekstrargrundvöll til framtíðar.

„Það sem Lýðháskólinn á Flateyri er að gera er mikilvægt“, segir Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra: „Það er mikill metnaður í skólastarfinu og gaman að sjá hve vel þetta gengur. Ég óska skólastjóra, starfsfólki og nemendum til hamingju með skólann sem er dæmi um þá fjölbreytni og nýsköpun í íslensku skólastarfi sem ég vil rækta og hlúa að. Þessi ákvörðun okkar er þannig liður í þeirri stefnu ráðuneytisins að skapa ungu fólki ný tækifæri til menntunar og þroska. Þá er skólinn þróaður af fyrirmynd lýðskóla- og samvinnuhreyfingar Norðurlandanna sem er mjög í anda þeirra hugsjóna sem við stöndum fyrir“, segir ráðherra og bætir við „nú liggur fyrir að gera samning um rekstur skólans til þriggja ára.“

Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri segir þessa niðurstöðu ráðherra og fjárlaganefndar skapa skólanum varanlegan grundvöll. „Þessi ákvörðun breytir öllu fyrir skólann og framtíð hans“, segir Runólfur. „Við erum afar glöð með að þetta þróunarverkefni okkar fái vængi. Skólinn hefur þegar haft mikil áhrif bæði með því að bjóða ný og löngu tímabær tækifæri fyrir ungt fólk í íslensku menntakerfi og með því að efla mannlíf og byggð á Flateyri, þeim stað sem, okkur sem stöndum að skólanum, er afar kær. Ég vil bara segja af þessu tilefni: Vel gert Lilja!“

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA