Lýðháskólinn á Flateyri getur bætt við sig 2-4 nemendum á vorönn 2019

Kennsla hófst við Lýðháskólann á Flateyri 20. september síðastliðinn með 29 nemendum á tveimur námsbrautum. Skólinn getur bætt við sig 1-2 nemendum á hvora námsbraut á vorönn.

Á námsbrautinni Hafið, fjöllin og þú miðar námið að því að upplifa náttúruna á nýjan hátt með því  að ferðast um hana, vinna með hana, nýta hana og kanna á öruggan hátt. Stór hluti námsins fer fram utan dyra í öllum veðrum og við hinar ýmsu aðstæður.

Á námsbrautinni Hugmyndir, heimurinn og þú miðar námið að því að þroska og þróa nemendur sem skapandi einstaklinga þar sem þeir öðlast þekkingu og færni í ferlum skapandi starfs allt frá hugmyndavinnu, yfir í framkvæmd og miðlun.

Lýðháskólinn á Flateyri er samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru frelsi, þekking og þroski.

Í Lýðháskólanum á Flateyri hefur fólk frelsi til menntunar út frá sínum einstaklingsbundnu forsendum. Því byggir skólinn ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar. Ábyrgð á náminu er nemandans þar sem megináherslan er á að uppgötva og styrkja þá einstöku hæfileika sem hver og einn býr yfir í umhverfi sem er fullt af áskorunum en um leið ríkt af stuðningi, endurgjöf og samvinnu.

Sótt er um á vefsvæði skólans:  https://lydflat.is/umsoknir-og-inntokuskilyrdi/

Umsóknarfrestur er til 20. nóvember n.k.  en kennsla á vorönn hefst þann 7. janúar.

Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist við Lýðháskólann á Flateyri. Við leitum eftir nemendum sem eru áhugasamir, viljugir og tilbúnir til að taka þátt, deila ábyrgð og prófa eitthvað nýtt.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsvæði skólans http://lydflat.is

DEILA