Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar 25 ára

Nemendur listaskola Rögnvaldar Ólafssonar.

Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar er fyrsti skóli sinnar tegundar á Íslandi.  Skólinn var stofnaður árið 1993. Árinu áður höfðu listáhugafélögin Litli leikklúbburinn og Myndlistarfélagið á Ísafirði ráðist í það stórvirki ásamt Djúpbátnum að kaupa Edinborgarhúsið.  Edinborgarhúsið var með stærstu og glæsilegustu timburhúsum á Íslandi þegar það var byggt 1907 og það var fyrsti íslenski arkitektinn Ísfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson sem teiknaði húsið.

Myndlistarfélagið var stofnað 1984 og hafði rekið sýningarsalinn Slunkaríki í Aðalstræti 22 frá árinu 1985 og hafði það í stofnskrá sinni að standa að kennslu og kynningu myndlistar. Svipað var uppá teningnum hjá LL á sviði leiklistar og sameinuðust félögin ásamt tónlistarskóla Margrétar Gunnarsdóttur um að stofna Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar 5. desember 1993.  Það þekktist ekki á þeim tíma að fleiri listgreinar væru kenndar undir sama þaki en í takt við tíðarandann tóku fleiri skólar upp þetta form nokkru seinna þ.á.m. Listaháskólinn.

Auk þess að það var þörf fyrir þessa nýbreytni þá sáu nýir húseigendur möguleika á að nýta og auka lífið í Edinborgarhúsinu alla daga vikunnar þegar fram liðu stundir. Skólinn komst í skjól Edinborgarhússins 1999 en þá var vinnan við að gera upp húsið og breyta því í menningarmiðstöð komin vel á veg og óx starfsemi skólans ár frá ári. Um skeið tók skólinn að sé myndmenntakennslu fyrir Grunnskólann Ísafirði og stóð að þeirri nýung að bjóða upp á listdanskennslu árið 2001 en það þekktist ekki fyrir utan Reykjavíkursvæðið.

Það má segja að á þessum 25 árum hefur starfsemin vaxið það mikið samhliða vexti Edinborgarhússins að húsnæði er komið að þolmörkum. Nemendur í föstu námi eru um 160 þetta árið og megináhersla er lögð á tónlist og dans en auk þess er boðið upp á  fjölbreytt val námskeiða yfir vetrarmánuðina þ.á.m. í myndlist. Það er því ástæða að horfa til þess að ein hæð er óuppgerð í Edinborgarhúsinu og er horft til hennar með vonarneista.

Það er ærið tilefni til að fagna og hyggst skólinn fagna því ásamt 100 ára fullveldi.

Margrét Gunnarsdóttir hefur stýrt skólanum frá upphafi og kennt á píanó og tengdar greinar. Aðrir fastir kennarar í dag eru Guðrún Jónsdóttir sem kennir söng og tónfræði, Jón Hallfreð Engilbertsson gítarkennari og Tumi Þór Jóhannsson á trommur. Listdanskennari skólans er  Henna-Riikka Nurmi.

1. desember kl. 13:00 – 16:00 verður dagur myndlistar. Myndlist hefur verið ein af meginstoðum í starfseminni með námskeiðum og kennslu.  Fjöldi myndlistarmanna hefur komið að kennslunni í gegnum tíðina og munu nokkrir þeirra leiðbeina öllum sem hafa áhuga frá klukkan 13:00 – 16:00. Farið verður yfir marga grunnþætti í sköpun myndmálsins í Rögnvaldarsal og myndlistarherberginu á annarri hæð hússins.

5. og 6. desember kl. 18:00 verða kabarettsýningar þar sem meðal annars  verða flutt lög úr ýmsum söngleikjum eins og Cabaret, Sound Of Music, Mary Poppins og My Fair Lady. Eldri píanónemendur, kennarar og velunnarar skólans skipa hljómsveitina, söngnemendur syngja og dansarar frá 9 ára aldri koma fram. Sýningarnar verða í Edinborgarsal og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Báðir þessir viðburðir eru styrktir af uppbyggingarsjóði og eru öllum opnir án endurgjalds. Við hvetjum alla til að fagna tímamótunum með okkur.

3. desember kl. 16:30 sýna yngri nemendur í dansi nokkur vel valin dansspor fyrir foreldra sína undir öruggri stjórn Hennu-Riikku Nurmi danskennara.

8. desember kl. 12-14 verður svo dagskrá með yngri hljóðfæranemendum og foreldrum þeirra. Þar verða flutt frumsamin lög spilað fyrir fjórar og jafnvel sex hendur með þátttöku foreldra.

Skólastjóri Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar er Margrét Gunnarsdóttir.

DEILA