Leggja til breytingar á búvörulögum

Halla Signý Kristjánsdóttir

Síðastliðinn föstudag lögðu Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna fram frumvarp um breytingar á búvörulögum. Frumvarpið fjallaði um að afurðastöðvar í kjötiðnaði yrðu undanþegnar frá ákvæðum samkeppnislaga. Tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðarstöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum, sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstareiningar.

Í frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga verðí afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast. Þau mega einnig gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.

Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. „Eins og segir í greinagerð með frumvarpinu er ætlunin að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er reyndar allt kjöt undir. Með frumvarpinu er tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir í samtali við BB.

„Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og það var sett af stað nefnd til að skoða hvaða úrræði eru í sjónmáli til að laga stöðu þeirra,“ sagði Halla enn fremur. „Í þeim viðræðum hefur verið nefnt að það þurfi að fara ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðastöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þessar afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leiti og því má segja að það sé alltaf hagur þeirra að það sé grundvöllur til að hagræða í rekstri. Afurðastöðvar er með frumvarpinu gert kleift að vinna saman og/eða sameinast til að vinna til dæmis að markaðstarfi erlendis eða hagræða í rekstri. Það ætti að skila sér í lægra verði til neytenda og hærra verði til bænda. Sameining gæti meðal annars falist í að samræma flutning sláturgripa og líka við dreifingu afurða. Þarna gæti líka komið sérhæfing í vinnslu hliðarafurða eins og til dæmis innmats.“

Halla Signý bendir á að innlendur kjötiðnaður sé engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geti illa sameinast því það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. „Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Frumvarpið er líka til að geta brugðist við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum.“ Hún segir að um 20% af því sem neytt er af kjöti sé innflutt og smáar afurðastöðvar vítt og breitt um landið geti ekki keppt við þá markaði, til þess eru þeir of stórir. „Sá veruleiki er til staðar að íslenskur landbúnaðar á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni“

Halla Signý segir að kanna þurfi hvort skipulögð sérhæfing, til dæmis í vinnslu kindakjöts, geti skilað ávinningi umfram samkeppni. Til þess þurfi þó að fækka afurðastöðvum, eigi þetta að skila tilætluðum árangri.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA