Landsbankinn:11 ára samfelldur hagvöxtur

Frá Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hagfræðideild Landsbanka Íslands birti í gær spá sína um efnahagshorfur til ársins 2021.  Bent er á að nú sé áttuda árið með samfelldum hagvexti og er því spáð að svo verði áfram út spátímabilið 2021. Gangi það eftir verður hér ellefu ára samfellt hagvaxtarskeið með meiri aukningu kaupmáttar almennings en dæmi eru um. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að kaupmáttur launa muni aukast um 3,6% á þessu ári, en aðeins um og innan við 1% á ári næstu þrjú árin. Það er í takt við spána um hagvöxtinn. Hann er talinn verða 3,9% í ár, sem er reyndar mikið á alþjóðlegan mælikvarða, og síðan um 2% á ári fram til 2021.

Spáð er eilítið vaxandi atvinnuleysi. Það er nú um 2,2% af vinnuafli en er talið aukast upp í 3% árið 2021.  Það eru versnandi viðskiptakjör erlendis sem draga úr hagvextinum og þá sérstaklega hækkandi eldsneytisverð.

Verðbólgan verður vaxandi samkvæmt spá Landsbankans. Verður hún mest nærri 4% um mitt næsta ár og síðan í kringum 3% út spátímann. Af þeim sökum býst Landsbankinn við því  að vextir munu hækka vegna aðgerða Seðlabankans til þess að stemma stigu við vaxandi verðbólguvæntingum.

Spáð er mjög vaxandi íbúðabyggingum á næstu árum en á hinn bóginn verður atvinnuvegafjárfesting minnkandi frá því sem verið hefur og muni dragast saman að raungildi næstu þrjú árin.

DEILA