Kynningarátak um náttúruvænt fiskeldi hefst í dag

Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF), hóf í dag kynningarátak um kosti þess að stunda fiskeldi á landi eða í lokuðum sjókvíum, og eftirfarandi er fréttatilkynning frá þeim:

„Á undanförnum mánuðum hefur nokkuð verið fjallað um fiskeldi í opnum sjókvíum við Ísland, sem er umdeilt hér eins og annars staðar. Minna hefur farið fyrir umræðu um heilbrigt og umhverfisvænt fiskeldi í lokuðum sjókvíum eða um eldi á landi. Markmið kynningarátaksins er að upplýsa frekar um neikvæð umhverfisáhrif opinna eldiskvía í sjó og kosti fiskeldis á landi og í lokuðum sjókvíum, sem er hvort tveggja í senn öruggara og umhverfisvænna.“

„Heiti kynningarátaksins er Á móti straumnum og vísar það til laxins „sem leitar móti / straumi sterklega / og stiklar fossa“ eins og Bjarni Thorarensen orti um.“

„Átakið hefst í dag, fimmtudaginn 1. nóvember, með opnun vefsíðunnar amotistraumnum.is. Þar má finna upplýsingar um kosti fiskeldis á landi og í lokuðum sjókvíum, nánari upplýsingar um þau vandamál og umhverfisáhættur sem felast í fiskeldi í opnum sjókvíum til viðbótar við annan mikilvægan fróðleik um málefnið.“

Þá stendur NASF á Íslandi fyrir fundi í Norræna húsinu í dag, fimmtudaginn 1. nóvember. Þar fjallar Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture, um fiskeldi í lokuðum sjókvíum og Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis og fiskiræktarsviðs hjá Hafrannsóknarstofnun, talar um áhættuna af erfðablöndun vegna fiskeldis í opnum sjókvíum.

Talsmaður kynningarátaksins er Gísli Sigurðsson, íslenskufræðingur:

„Markmið átaksins er að kynna kosti fiskeldis í lokuðum sjókvíum, sem er hvort tveggja í senn öruggt og umhverfisvænt. Fiskeldi er mikilvæg atvinnugrein og mun hafa veigamiklu hlutverk að gegna þegar fram líða stundir. Ísland er ákjósanlegur staður til að byggja upp öflugt fiskeldi en það er mikilvægt að stunda fiskeldi í sátt við náttúruna og án þess að það skaði ímynd og orðspor Íslands,“ segir Gísli.

Um NASF:

Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF) er alþjóðleg samtök sjálfboðaliða með höfuðstöðvar í Reykjavík. Sjóðurinn hóf starfsemi árið 1989 að frumkvæði Orra Vigfússonar (1942-2017), formanns sjóðsins til dauðadags. Meginmarkmið NASF er að vernda villtan lax í Norður Atlantshafi. Starfsemi sjóðsins og upphafsmaður hans, Orri Vigfússon, hefur notið virðingar náttúru- og umhverfissinna víða um heim og hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA