Kóraferð um fagrar slóðir í Slóveníu og Austurríki

Kórarnir tóku að sjálfsögðu lagið við hin ýmsu tilefni. Mynd: Sólrún Jónsdóttir.

Kór Hólmavíkurkirkju og Reykholtskórinn lögðu upp í mikla langferð nú á dögunum og Eiríkur Valdimarsson, formaður kirkjukórs Hólmavíkur, var svo indæll að senda okkur frásögn af ferðinni. Guðmundur Björgvin Magnússon og Sólrún Jónsdóttir eiga svo myndirnar sem fylgja.

„Kór Hólmavíkurkirkju og Reykholtskórinn rugluðu saman reitum nýverið og fóru saman í ferðalag til Slóveníu og Austurríkis dagana 22.-29. október.  Kórarnir búa svo vel að njóta starfskrafta sama stjórnandans, Viðars Guðmundssonar bónda, kórstjóra, Borgfirðings og tónlistarsnillings í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum.

Það var blástur og úrkoma þegar hópurinn lagði af stað frá Keflavík snemma á mánudagsmorgni en umbunin var blíðviðri sem tók við okkur þegar á meginlandið var komið og hélst það megnið af ferðinni, sem jók á upplifunina.

Flogið var til München, þar sem rúta beið hópsins sem flutti okkur af stað yfir Alpana. Þar enduðum við í gullfallegum bæ sem nefnist Bled og stendur við stöðuvatn með afar fallegri og sögufrægri eyju úti í miðju vatninu. Daginn eftir, er allir höfðu náð úr sér ferðaþreytunni, var farið með rútu upp að Bohinj-vatni og með kláf upp á Vogel skíðasvæðið. Ferðin upp á fjallið var snögg, en kláfurinn flutti mannskapinn upp um 1000 metra á um 5 mínútum. Þarna voru mjög eftirminnilegir og fallegir staðir, jafnt við vatnið og uppi á fjallinu þaðan sem útsýni yfir Alpana var vægast sagt einstakt. Eftir tveggja nátta dvöl í Bled flutti hópurinn sig úr stað og yfir í höfuðborg Slóveníu, Ljubljana, sem er afar falleg borg og gaman að heimsækja. Þar fengum við sem annars staðar mjög góða leiðsögn, logn og sólskin. Auk þess brast hópurinn í söng við og við, enda tilgangur ferðarinnar ekki hvað síst að þenja raddböndin svolítið!

Fimmtudagskvöldið 25. október héldu kórarnir tónleika í gullfallegri kirkju í bænum Cerklje, en á leiðinni þangað var komið við á sveitabæ þar sem tekið var á móti hópnum og honum kynntir búskaparhættir. Á bænum búa þrjár kynslóðir og reka þar myndar kúabú auk þess sem þar er starfrækt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að tryggja fólki með fötlun vinnu, bæði við búið og við framleiðslu afurða, og var einkar áhugavert að kynnast því góða starfi. Fólkið á bænum var einstaklega gestrisið og vinalegt og lét sig ekki muna um að taka á móti yfir 60 manns á þessum góða degi með kostum og kynjum. Eftir þessa heimsókn héldum við tónleika í kirkjunni sem gengu mjög vel og voru tónleikagestir á annað hundrað.

Eftir tónleikana hélt hópurinn áfram að njóta gæða Slóveníu sem eru ekki lítil! Farið var í Tækniminjasafn Slóveníu í bænum Bistra sem er rétt utan við Ljubljana. Þar skoðaði hópurinn m.a. glæsivagna Títós Júgóslavíuforseta. Skoðaðir voru dropsteinahellar í Postonja, var farið með litlum lestarvögnum inn í hellana og síðan gengið um þessa undraveröld með leiðsögn. Þessi heimsókn var einstök og auðvitað tók hópurinn lagið í tónleikasal þessa gríðarstóra hellakerfis sem staðsettur er litla tvo kílómetra inn í fjöllunum! Á leið okkar frá Postonja til Lubljana var komið við á vínbúgarði og þar var boðið upp á að smakka afurðir búsins.

Eftir þrjár góðar nætur í Ljubljana fórum við tilbaka um Austurríki og komum við í Salzburg og dvöldum þar í tvær nætur. Þarna höfðu kórfélagar heilan sunnudag til að skoða sig um og njóta dvalar í fallegri og sögufrægri borg, einhverjir fóru í messu, aðrir á tónleika og svo einhverjir sem einfaldlega spókuðu sig um í borginni.

Það er frábært hvernig tveir hópar fólks, Borgfirðinga og Strandamenn, ferðuðust með þessum hætti saman til ókunnra slóða og allt gekk vel, og bros á hverju andliti! Ekki spillti fyrir að ferðinni var stýrt með traustri, skemmtilegri og fræðandi fararstjórn hjónanna Jónasar Helgasonar og Guðrúnar Bjarnadóttur, en það var Ferðaskrifstofan Nonni sem skipulagði ferðina.“

DEILA