„Hvað verður um mitt barn?“

Helga Guðrún Gunnarsdóttir með yngsta soninn.

Helga Guðrún Gunnarsdóttir og Vilhelm Harðarson eru búsett á Ísafirði og eiga fjögur börn. Dagvistunarvandamál í Ísafjarðarbæ eru ekki ný fyrir þeim, því frá því að þau fluttu aftur vestur árið 2010 hafa þau alltaf þurft að bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. Yngsti sonurinn er fimm mánaða gamall en kvíðahnúturinn hjá Helgu Guðrúnu vex stöðugt. Mun hann komast inn á leikskóla? Mun hún geta farið aftur að vinna eftir fæðingarorlof? Þarf hún að vera tekjulaus í einhvern tíma? Eða þurfa þau hjónin aftur að fá til sín manneskju sem aupair? Það eru ekki allir sem eiga kost á því og það getur reynt á heimilið að fá ókunnuga manneskju heim til sín.

Það er ekki gott að ganga um með spurningar í maganum og sérstaklega ekki þegar sjaldan eða aldrei fást svör. Bæjaryfirvöld hafa oftar en ekki lofað öllu fögru og til dæmis var það eitt af kosningaloforðunum í Ísafjarðarbæ síðastliðið vor að börn kæmust fyrr inn á leikskóla. Það hefur tekist í sumum tilfellum, en öðrum ekki. Og ekki fást svör. Til dæmis náðist einungis í einn bæjarfulltrúa fyrir vinnslu þessarar fréttar og bæjarstjóri hefur ekki svarað.

Eins og áður var sagt fluttust Helga Guðrún og Villi vestur árið 2010. Þá var elsti sonur þeirra á þriðja ári en Helga varð samt sem áður að bíða í sex vikur eftir leikskólaplássi fyrir hann. „Yfirleitt eiga börn sem eru að flytja í bæinn að komast fljótlega inn á leikskóla, oftast nær eru pláss en ég gat ekki byrjað að vinna fyrstu sex vikurnar eftir að við fluttum,“ segir Helga Guðrún í samtali við BB Hún segir einnig að þegar næsta barn kom í heiminn árið 2011 hafi hún fæðst á „óhentugum“ tíma, eða í nóvember og þess vegna fékk hún ekki leikskólapláss fyrr en 22 mánaða.

Þriðja barn hjónanna, hún Hafrún, er fædd í mars 2017. Aftur á „óhentugum“ tíma. „Hafrúnu átti að komast inn í apríl 2018. Eða okkur var sagt að það væri líklegt að hún kæmist inn. Hún er fædd í mars 2017 en svo voru krakkar sem voru fædd í febrúar á sama ári, að fara inn á leikskóla en ég þurfti að bíða í hálft ár. Þá tóku þau ekki inn fleiri. Nágrannakona mín til dæmis átti barn í janúar, á sem sagt „hentugum“ tíma og barnið hennar komst inn. Svo núna stöndum við frammi fyrir því að vera bara risastórt spurningamerki hvort yngsti sonurinn komist inn á næsta ári eða hvað. Núna í haust voru tekin inn börn sem voru 12 og 13 mánaða en það er fullt af konum sem eiga börn sem eru fædd 2017 sem eru ekki komin inn. Og hvað verður þá um mitt barn?“ segir Helga.

Engir dagforeldrar eru sem stendur á Ísafirði og hafa ekki verið í eitt og hálft ár. Helga Guðrún segist ekki geta hugsað sér að vera dagmamma inni á sínu eigin heimili en konum er stundum bent á þann möguleika þegar upp koma vandræði með dagvistunarúrræði. „Ég myndi kannski nenna að vera dagmamma ef Ísafjarðarbær myndi útvega húsnæði og innanstokksmuni. Og maður væri bara starfsmaður hjá Ísafjarðarbæ. Þá held ég að margir myndu vilja koma og vinna sem dagforeldri í staðinn fyrir að hafa starfssemi heima hjá sér. Ef Ísafjarðarbær ætti litla íbúð eða eitthvað þar sem 2-3 konur gætu verið dagmæður þá myndi það leysa stórt vandamál. Af því núna er Ísafjarðarbær að auglýsa eftir dagforeldrum,“ bendir Helga Guðrún á.

Hún segir að lítil svör fáist hjá bæjaryfirvöldum. „Þau segja sem minnst. Það er vandamálið.“ Hún segir jafnframt frá kunningjakonu sinni sem hafi fengið þau svör að leikskólaplássin væru til en það vantaði starfsfólk. Og jafnvel þó foreldrum hafi verið bent á leikskóla á Suðureyri og Flateyri þá er staðan þannig á Flateyri núna að þar vantar líka starfsfólk og líkur á að skerða þurfi vistunartíma þeirra barna sem þegar eru með leikskólapláss. „En hvar eru atvinnuauglýsingarnar fyrir þetta starfsfólk? Það er hvergi verið að auglýsa eftir því,“ segir Helga og það má kenna vissa uppgjöf í máli hennar. Enda hlýtur það að vera lýjandi að standa í þessum sporum í fjórða skiptið.

BB náði í Örnu Láru Jónsdóttur bæjarfulltrúa frá Í-listanum. Hún benti á að það væri óásættanlegt að foreldrar gætu ekki snúið aftur til vinnu að loknu fæðingarorlofi. „Þess vegna er algjört forgangsmál að byggja við Eyrarskjól,“ segir Arna Lára. „Það verkefni er búið að vera í undirbúningi undanfarið ár, hönnunin er tilbúin og búið er að auglýsa deiliskipulagið. Nú er ekkert að vanbúnaði en að fara af stað en það þarf að tryggja verkefninu fjármögnun í fjárhagsáætlun 2019. Það hefur verið mikill sátt og breið samstaða um málið í bæjarstjórn þannig að ég geri ekki ráð fyrir öðru en byrjað verði að byggja strax á næsta ári. Mín skoðun er sú að það verði að lengja fæðingarorlofið til 12. mánaða og að því loknu taki leikskólavist við. Okkur er lánsamlega að fjölga í Ísafjarðarbæ og við þurfum strax að huga að því að búa til fleiri enn fleiri leikskólapláss með því t.d. að stækka Sólborg.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA