Hvað er bæjarstjórnin að drullumalla á Eyrartúni?

Ágæti lesandi, ég hef verið að velta fyrir mér þeirri atburðarrás sem fór í gang er ákveðið var að færa þennan margumrædda ærslabelg af áður ákveðinni og kynntri staðsetningu yfir á hverfisverndarsvæði án allrar kynningar eða umræðu. Ég hef sent bréf, rætt við marga en ekki fengið nein svör. Á nokkrum mínútum var hætt við fyrri staðsetningu, mokað yfir svæðið sem byrjað var á og byrjað annars staðar í samráði við tæknideild og forstöðumanns safnahús, sagt að þetta væri vegna athugasemda nágranna.
Ok gott og vel en bíðum aðeins við, þetta með nágranna er gott og gilt en hvað með okkur hin sem fengum belginn inn í forstofu til okkar með tilheyrandi bíla umferð og bílflautandi foreldrum. Víst er það notalegt sitja í heitum bíl með vélina í gangi, líta aðeins í símann meðan börnin ærslast á belgnum, flauta svo þegar þeim finnst á sitt barn hallað á belgnum eða þegar tíminn er kominn til að halda heim, áttum við þessir nágrannar ekkert að fá að segja um þessa nýju staðsetningu.

Svo er það þetta „í samráði við forstöðumann safnahús“, forstöðumaður safnahús hefur ekkert með það að gera að gefa leyfi fyrir framkvæmdum á þessu hverfisverndarsvæði þvert á móti á hann að standa vörð um þetta fallega friðaða hús okkar Ísfirðinga og umhverfi þess sem honum er treyst fyrir, það hefði alveg eins verið hægt að spyrja Jóa Torfa eða Samma rakara um leyfi.

Vissu t.d. ekki starfsmenn tæknideildar eða forstöðumaður safnahús um að friðlýstum fornleifum fylgja 100 metra friðhelgað svæði og að hvers konar röskun er óheimil án leyfis Minjastofnunar, ekki eru nema um 50 metrar í belginn frá hinu forna bæjarstæði Eyrar við Skutulsfjörð. Þessi belgur er hræðilegt lýti á ásýnd þessa fallega húss og næsta umhverfis þess, ærslabelgur er frábært leiktæki og virkilega gaman að fylgjast með krökkum að leika á þeim.

Það var ekki fyrr en mér var bent á að skoða tillögu sem lá fyrir Skipulags- og mannvirkjanefnd 29. sept. og hét þá Deiliskipulag – Eyrarskjól – 2018050049 og var samþykkt á Bæjarstjórnar fundi 4. okt. sl. að þetta fór allt að ganga upp. Þessi tillaga sem fjallar reyndar aðeins að litlum hluta um Eyrarskjól (2 hlutar af 6) en vittu til, einn af þessum liðum í þessari ágætu tillögu er einmitt um þetta áður ákveðna svæði undir ærslabelginn nefnilega Túngötu 10.

Það virðist sem að það hafi myndast svona líka rífandi fín stemming á fundum Skipulags- og mannvirkjanefndar, ætla mætti að nefndamenn hefðu farið að henda inn sínum eigin hugmyndum sem snúa t.d. að sínum eigin heimilum og vinnustöðum, héldu kannski að enginn myndi taka eftir því og kalla bara tillöguna því saklausa nafni Deiliskipulag – Eyrarskjól og svo greiddu þeir þessir sömu líka atkvæði með tillögunni. Það virðist nefnilega enginn kannast við að hafa komið þessum hugmyndum á framfæri. Formaður bæjarráðs Daníel Jakobsson lét hafa eftir sér á BB.is 23. okt. sl. að einhverjir „skipulagsmenn“ (ég get ekki með neinu móti áttað mig á því hverjir þessir skipulagsmenn eru) hefðu bara bætt þessu við. Ég á erfitt með að trúa því að Verkís eða einhverjir „skipulagsmenn“ séu að vinna svona tillögur án heimildar eða skipunar einhvers staðar frá.

Ég tel það tæpast tilviljun að ærslabelgurinn var færður af áður kynntum stað og nákvæmlega út fyrir lóðarmörk á Túngötu 10 í samráði við forstöðumann safnahúss sem er líka fyrir einskærra tilviljun nefndarmaður í Skipulags- og mannvirkjanefnd.
Kæru fulltrúar í nefndum og ráðum á vegum Ísafjarðarbæjar, ég hvet ykkur til að lesa a.m.k. grein eftir Ingu Þöll Þórgnýsdóttur bæjarlögmann á Akureyri þar er fjallað um t.d. um hæfi ykkar, réttindi og skyldur í bæjarstjórn, nefndum og starfslið bæjarins og er þessi grein byggð á stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þar er t.d. kafli sem fjallar um hvað veldur vanhæfi?

Nú hefur verið birt til auglýsingar tillaga sem var samþykkt í Bæjarstjórn þann 4. okt. en þetta getur varla verið sama tillagan því núna heitir hún „Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði, Ísafjarðarbæ“ en var samþykkt í Bæjarstjórn sem „Deiliskipulag – Eyrarskjól“. Þessi auglýsing er afar illa unnin t.d. er talað um að Hverfisverndarsvæði H8 ná að hluta inn á svæðið, hið rétta er að það er líka verið að stækka lóð Túngötu 10 langt inn á Hverfisverndarsvæði H8 eins er líka talað um að „safnahúsið er þó eina byggingin sem nýtur hverfisverndar á þessu svæði deiliskipulagstillögunnar“ en öll hús sem eru innan Hverfisverndarsvæði H8 njóta Hverfisverndar en safnahús okkar Ísfirðingar er friðað sem og umhverfi þess, þetta hljóta starfsmenn Ísafjarðarbæjar að vita.

Virðulega bæjarstjórn og nefndarmenn á vegum Ísafjarðarbæjar sýnið okkur bæjarbúum þá lámarks virðingu að vanda til verka, hættið þessu drullu malli með Eyrartún. Það getur vel verið að það sé þörf fyrir meira rými fyrir safnahúsið, leggið þá fram einhverja þarfagreiningu og teikningar sem við íbúar Ísafjarðarbæjar gætu þá skoðað og sagt okkar álit um en ekki bara eitthvað óskilgreint hús.

Eyrartún nýtur hverfisverndar og er hverfisvernd skilgreind í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008 – 2020 í kafla 7.4.4 og markmið hennar er sem hér segir “ Ákvæðin taka til breytinga, viðhalds, niðurrifs og nýbyggingar húsa. Einnig taka þau á notkun, starfsemi og umhverfi. Hverfisverndinni er ætlað að vernda íbúa og hagsmunaaðila fyrir hugsanlegum óæskilegum breytingum á svæðinu og ásýnd þess“.

Ágæti íbúi Ísafjarðarbæjar ég hvet þig senda inn athugasemdir við þessa tillögu fyrir 3. desember, látum ekki svona vinnubrögð viðgangast. Við eigum rétt á því að fá að segja okkur skoðun um útlit Eyrartúns, ekki samþykkja bara einhverja óskilgreinda byggingu, við þurfum ekki á neinu „Braggamáli“ að halda. Það eru til ágætar samþykktar tillögur af þessu svæði sem ætti frekar að halda áfram með.

Með svona drullu malli er bærinn að kalla yfir sig endalaus deilumál og kærur sem geta tafið nauðsynlega uppbyggingu á Eyrarskjóli um langan tíma, hélt að þessi nýi meirihluti stæði fyrir eitthvað annað en svona vinnubrögð. Ég hlýt að hafa verið með óráði þann 26. maí sl. þegar ég lagði þessum meirihluta til mitt atkvæði.
Stöndum vörð um þetta fallega og verðmæta tún í hjarta Ísafjarðar fyrir komandi kynslóðir.

Ísafjörður 25. nóvember 2018
Gylfi Sigurðsson
Túngötu 5
Ísafirði

DEILA