Húsráð fyrir fólk sem veit ekki af hverju það þurfti einu sinni að skúra loftið

Þvotturinn getur verið bölvað vesen á mörgum bæjum. Hann á það til að safnast upp, kuðlast dálítið saman og neita alfarið að koma sér sjálfur í skápa og skúffur. Ýmislegt er þó hægt að gera til að létta honum örlítið sporin. Hver segir til dæmis að það þurfi að brjóta saman borðtuskur og þvottapoka? Fer þetta ekki hvort sem er saman í krumpaða klessu þegar kemur að notkun? Og hverjir sjá ofan í tuskuskúffuna aðrir en þeir sem spara sér mögulega örfáar mínútur með því að þrusa tuskunum þar ofan í, í stað þess að pressa þær rækilega saman í snyrtilega ferninga?

Svo er það hvíti þvotturinn. Þarf að flokka hvítt frá hinu? Ef nútíminn er ekki búinn að  hanna tau betur en svo að það taki ekki lit þegar þvegið er með öðru, til hvers þá að fjárfesta í hvítum klæðum? Er ekki auðveldara bara að skella þeim í vélina með hinu. Það er ekki það versta í heimi að vera með örlítið gráleitan blæ á klæðunum. Við getum kallað það tísku ef vill.

Ef það eru unglingar eða fólk sem er rétt að detta í að verða unglingar á heimilinu þá er margt vitlausara en að láta þau hafa sína eigin þvottakörfu og kenna þeim á þvottavél. Við það ráða börnin sjálf hvenær uppáhaldsfötin eru hrein og fullorðna fólkið þarf lítið að hugsa um þvottinn þeirra meir.

DEILA