Hugguleg rökkurstund á Suðureyri

Útibú Tónlistarskóla Ísafjarðar hittust á Suðureyri fyrir rúmri viku síðan til þess að spila saman og njóta samveru. Útibúin eru staðsett á Þingeyri, Suðureyri og Flateyri; „og þar eru margir duglegir krakkar sem vita kannski ekki hvert af öðru og okkur langaði til þess að skapa vettvang fyrir þau til að kynnast og spila saman og kynnast í gegnum tónlist, spil og leiki,“ sagði Dagný Arnalds skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar í samtali við BB.

Hún, Jóngunnar Biering og Sara Hrund Signýjardóttir voru tónlistarkennararnir sem stóðu fyrir samkomunni. Það er ekki hægt annað en að dást að þrautseigju þeirra, þolinmæði og hæfileikum þegar þau svifu á milli barna og hljóðfæra í samspilinu, tilbúin með léttar handahreyfingar og bros til að leiðbeina unga tónlistarfólkinu áfram. Foreldrum var boðið að koma síðasta hálftímann og hlusta á börnin leika og syngja en ekki vildi betur til en að rafmagninu sló út um leið og foreldrar gengu í salinn. Engin leið var til að komast inn í rýmið þar sem rafmagnstaflan faldi sig en kennarar létu það ekki á sig fá, viðstaddir tóku upp síma og tendruðu á þeim ljós svo úr varð hin huggulegasta rökkurstund.

„Þetta tókst frábærlega,“ sagði Dagný, sem er ekki þekkt fyrir annað en jákvæðni og að taka öllu sem fyrir ber með jafnaðargeði. „Við byrjuðum á upphitun og leikjum til að hrista börnin saman og þau voru strax til í að taka þátt þannig að það skapaðist mjög skemmtileg stemming. Svo þurftum við nú að aðeins að nærast þannig að við fengum okkur pizzu og hér voru líka tvö afmælisbörn svo þetta var smá afmælispartý í leiðinni.“

„Þar næst æfðum við lag sem nemendur voru búin að undirbúa svolítið í sitthvoru lagi, hvert í sínu útibúi með sínum kennara. Þar voru þau búin að æfa parta sem við æfðum svo saman núna. Og þetta var heilmikið grúv í lokin,“ sagði skólastjórinn ánægð. „Svo bara eiginlega um leið og foreldrarnir mættu þá sló rafmagninu út og engin leið að komast í töfluna þannig að þetta varð svona óvænt, órafmögnuð stund. En það er líka bara list að kunna að söðla um og bregðast við aðstæðum,“ sagði Dagný létt að lokum.

Nemendur spiluðu á píanó, trommu, gítara, ukulele, blokkflautur og klarinett, auk þess sem þarna voru nemendur úr söngdeild Tónlistarskólans. Sum nemendanna eru þannig bæði í tímum á Ísafirði og tengd sínum útibúum. Það er full ástæða til að fylgjast með mörgum þeirra sem þarna stigu á stokk í framtíðinni og hver veit nema þarna leynist eftirfarar hljómsveitarinnar Between Mountains.


Sæbjörg
sfg@bb.is