Gjaldtökuleiðir Norðmanna sem hraða uppbyggingu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jon George Dale samgöngu- og fjarskiptaráðherra Noregs

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra átti fund með Jon George Dale samgöngu- og fjarskiptaráðherra Noregs sl. föstudag. Fundarefnið var að kynna sér skipulag vegamála í Noregi, útfærslur og breyttar áherslur þeirra í uppbyggingu á vegakerfinu. Með Sigurði Inga Jóhannssyni var einnig forstjóri Vegagerðarinnar, Bergþóra Þorkelsdóttir ásamt fulltrúum ráðuneytisins. Á fundinum var farið yfir gjaldtökuleiðir sem Norðmenn hafa tileinkað sér til að hraða uppbyggingu vegakerfisins.

 

Í Noregi eru tvenns konar gjaldtökur í vegakerfinu, annars vegar vegtollar til að mæta allt að helmings kostnaði við uppbyggingu tiltekinna framkvæmda og hins vegar gjaldtaka innan þéttbýlis til að mæta kostnaði við innviðauppbyggingu í tengslum við almenningssamgöngur og til að draga úr mengun af völdum umferðar.

 

Þá hafa Norðmenn farið þá leið að færa tilteknar framkvæmdir, á vegum, göngum og brúm, úr höndum norsku vegagerðarinnar og til einkaaðila í því skyni að bæði flýta og hámarka ábata af framkvæmdum. Opinbert hlutafélag Nye Veier AS sér um umfangsmiklar framkvæmdir á völdum svæðum en undirbúningur slíkra framkvæmda er langur og er markmið fyrirtækisins m.a. að ná kostnaði framkvæmda niður um 20% að meðaltali.

Þá eru nokkur samvinnuverkefni, líkt og Hvalfjarðargangamódelið, víðsvegar um landið og eru þau hluti af samgönguáætlun.

 

Ráðherra og föruneyti fundaði einnig með fulltrúum Nye Veier AS sem kynntu starfsemi sína nánar og forgangsröðun framkvæmda. Daginn áður var norska vegagerðin heimsótt sem fór yfir árangur af samvinnuverkefnum síðastliðinna ára. Ljóst er að á síðastliðnum árum hafa Norðmenn náð góðum árangri á tiltölulegum stuttum tíma sem verðmætt er að horfa til með það að markmiði að nýta þá reynslu sem hefur gefist vel.

 

Þess má geta að starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem vinnur að því að finna nýjar leiðir í fjármögnun á vegakerfinu, hefur einnig verið að horfa til annarra landa, þ.á.m. Noregs, og fengið til sín á fundi erlenda sérfræðinga sem hafa frætt og miðlað sinni vitneskju.

 

Næstu skref eru að starfshópurinn móti tillögur sem miða að því að hraða einstaka framkvæmdum, sem eru nú í tillögu að samgönguáætlun, með því að nýta nýjar fjármögnunarleiðir að hluta eða öllu leyti. Einnig var starfshópnum falið að móta tillögur um fjármögnun vegakerfisins til lengri tíma vegna orkuskipta. Starfshópurinn mun skila tillögum sínum til ráðherra í byrjun næsta árs.

 

DEILA